Erlent

Mordor, Tardis og Skywalker má finna á Karon

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Eitt kennileitið á Karon gæti verið nefnt eftir þorparanum úr Stjörnustríðsmyndunum.
Eitt kennileitið á Karon gæti verið nefnt eftir þorparanum úr Stjörnustríðsmyndunum. nordicphotos/AFP
Nú þegar geimfarið New Horizon hefur nálgast Plútó og sent frá sér nýjar myndir sem sýna hvernig landslag á Plútó er hefur Alþjóðlega geimvísindasambandið (IAU) óskað eftir tillögum frá almenningi um örnefni á Plútó og tungli þess Karon.

Nöfnin sem óskað er eftir fyrir Plútó eru afar hefðbundin en þar munu fjöll og dalir koma til með að heita eftir vísindamönnum, geimförum og goðsagnaverum.

Hvað tunglið Karon varðar færist ögn meira fjör yfir nafngiftina, en sambandið hefur óskað eftir að örnefni á Karon vísi til skáldsagnapersóna, skáldaðra staða og geimfara úr vísindaskáldsögum.

Nokkrar tillögur eru þegar komnar til athugunar en þar má meðal annars nefna persónur úr Star Trek og Stjörnustríði á borð við Spock, Kirk, Uhura, Skywalker og Vader. Þá eru nokkrar tillögur úr sjónvarpsþáttunum Dr. Who á borð við Tardis og Gallifrey en nú þegar hafa vísindamenn byrjað að kalla suðurpól Karons Mordor, sem einmitt birtist á myndum sem kolsvartur blettur líkt og ríki myrkraherrans í Hringadróttinssögu. 


Tengdar fréttir

NASA birtir mynd af Plútó

Geimfarið New Horizons flaug framhjá Plútó í hádeginu, um 12.500 kílómetrum frá yfirborðinu dvergreikistjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×