Innlent

Hætta á stórum skjálfta á Reykjavíkursvæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Krýsuvík.
Frá Krýsuvík.
Almannavarnir sendu út laust fyrir hádegi viðvörun vegna jarðskjálftavirkni að undanförnu á svæðinu frá Krísuvík austur í Ölfus. Þar segir að vísbendingar séu um að möguleg talsverð spenna á svæðinu geti losnað út í stærri skjálftum. Minnt er á að sögulegar upplýsingar bendi til að jarðskjálftar á þessu svæði geti orðið allt að 6,5 að stærð. Tilkynning Almannavarna er svohljóðandi:

„Undanfarnar vikur hefur orðið nokkur aukning á jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum og nágrenni hans. Meðal annars varð skjálfti af stærð 4 í lok maí sem átti upptök við Kleifarvatn og fannst vel víða á höfuðborgarsvæðinu.

Í framhaldi slíks atburðar getur spennuástand í jarðskorpunni orðið óstöðugra á stærra svæði í kring.

Greining á smáskjálftum bendir til þess að slíkur óstöðugleiki geti verið til staðar allt frá Kleifarvatni og austur í Ölfus. Mælingar á jarðskorpuhreyfingum síðustu árin gefa einnig vísbendingar um að á þessu svæði sé mögulega talsverð spenna sem getur losnað út í stærri skjálftum. Sögulegar upplýsingar benda til að jarðskjálftar á þessu svæði geti orðið allt að 6,5 að stærð. Meðal annars urðu skjálftar um og  yfir 6 að stærð á Bláfjallasvæðinu árin 1929 og 1968. Þeir skjálftar ollu ekki miklu tjóni á höfuðborgarsvæðinu en þó ber að gæta að því að byggð hefur færst miklu nær þessu skjálftasvæði á síðustu árum.

Búast má við því að áhrif skjálfta af þessari stærðargráðu í nálægum byggðum (höfuðborgarsvæðinu, Grindavík, Þorlákshöfn, Hveragerði og Reykjanesbæ) verði þannig að allir finni jarðskjálftann, margir verði skelkaðir og jafnvel hlaupi út úr húsum. Þung húsgögn gætu hreyfst og múrhúðun sprungið af veggjum á stöku stað.  Annars er ekki að búast við miklu tjóni á vel byggðum húsum.

Rétt er að minna íbúa á jarðskjálftasvæðum reglulega á atriði sem hafa ber í huga og hvernig hægt er að minnka líkur á meiðslum eða tjóni á eignum þegar jarðskjálftar verða. Skoða þarf hvar á heimili eða vinnustað hættur geta leynst ef jarðskjálfti verður.  Rétt er að benda á að veruleg hætta  getur verið á hruni í hellum nálægt upptökum stórra jarðskjálfta auk þess sem grjót getur hrunið úr hlíðum fjalla.

Leiðbeiningar um hvernig megi draga verulega úr hættu af völdum jarðskálfta má finna á vefnum www.almannavarnir.is . Myndband um sama efni frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er á Youtube ."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×