Lífið

Óttast að djammarar muni ekki pin-númerin

Freyr Bjarnason skrifar
Össur Hafþórsson segir að pinnið á minnið eigi eftir að róa partíið niður og óttast að það verði svolítið vesen.
Össur Hafþórsson segir að pinnið á minnið eigi eftir að róa partíið niður og óttast að það verði svolítið vesen. Vísir/Pjetur
Skemmtistaðaeigendur í miðbæ Reykjavíkur eru uggandi því um næstu helgi þurfa allir djammarar að vera búnir að leggja pinnið sitt á minnið. Ekki verður lengur nóg að ýta bara á græna takkann ef pinnið gleymist.

Óvíst er hvort þeir eigi allir jafnauðvelt með að muna eftir pin-númerinu á kortunum sínum, sérstaklega ef þeir eru í glasi. „Þetta verður eitthvað bíó vegna þess að fólk er ekki alveg í besta skapinu og besta standinu þegar líður á nóttina. Ég held að þetta verði svolítið vesen,“ segir Össur Hafþórsson sem, ásamt eiginkonu sinni Lindu Mjöll Þorsteinsdóttur, á staðina Park, Bar 11 og Bar 7.

Sjá einnig:Laugardagar eru bestu dagarnir til að djamma

Hann hefur heyrt af því að aðrir veitingamenn séu órólegir yfir komandi helgi. „Ég veit ekki hvernig þetta fer. Það er spurning hvort fólk tattúveri þetta á úlnliðinn á sér og barþjóninn geri þetta fyrir það vegna þess að fólk man oft ekki hvar það er, hvað þá að það muni pinnið sitt.“

Össur segir að barþjónar verði einfaldlega að hafa þolinmæðina að vopni. „Þetta á eftir að hægja alla afgreiðslu og róa partíið aðeins niður.“

Guðfinnur Sölvi Karlsson, eða Finni hjá Prikinu, býst við að það verði hikst fyrstu helgarnar. „Fólk getur verið helvíti heiladautt. Að muna númer getur verið virkilegt verkefni, sérstaklega þegar það er byrjað að síga á seinni helminginn en vonandi gengur þetta upp,“ segir Finni, sem sjálfur mundi ekki pin-númerið sitt þegar hann brá sér í bakaríið í gærmorgun.

Sjá einnig:Er djamm í kvöld?

„Ég var allsgáður þannig að ég veit ekki hvernig hinn venjulegi Jón verður klukkan hálffimm um morguninn. Áfengi fer ekkert rosalega vel með minnið, þannig að pinnið á minnið í áfengisvímu er örugglega erfiðara en pinnið á minnið í bakaríi á þriðjudegi. En við erum allir í stuði og tæklum þetta bara,“ segir hann hress.

Arnar Gíslason, einn af eigendum Lebowski Bars og Dönsku kráarinnar, byrjaði um síðustu helgi að láta fólk stimpla inn pin-númerin sín á Lebowski Bar og segir að það hafi gengið vel. „Ég held að þetta verði fínt. Þetta tefur vissulega fyrir afgreiðslu en á móti hefur fólk aðeins meiri tíma til að kaupa skot, snafs eða eitthvað slíkt, þannig að þetta getur líka bætt söluna,“ segir Arnar.

„Auðvitað verða einhverjir smá hnökrar en kúnnarnir hjá okkur eru mjög þolinmóðir og við reynum að vera þolinmóð á móti.“

Hann bætir við að helsta vandamálið hingað til hafi verið hversu margir gleymi kortunum sínum í posunum. „Það er búið að aukast gríðarlega mikið að fólk er að koma til okkar daginn eftir og ná í glötuð kort.“ 


Tengdar fréttir

Lengra og betra djamm

Miðbærinn. Árið er 1998. Allir skemmtistaðirnir loka kl. 03.00. Austurstrætið fyllist af fólki niður í grunnskólaaldur. Stemningin er eins og á útihátíð. Öll Lækjargatan bíður eftir leigubíl. Sumir slást. Aðrir eru að leita sér að eftirpartíi.

„Þessir nemendur sofa ekki út eða djamma á kvöldin“

Alvarlegt ástand hefur skapast á heimilum fatlaðra framhaldsskólanema vegna verkfalls framhaldsskólakennara. Móðir fatlaðs drengs segir líf hans hafa raskast á alla mögulega vegu eftir að verkfallið hófst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.