Sport

Tennislandsliðið endaði í 11.-12. sæti

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Birkir Gunnarsson fór mikinn í íslenska liðinu.
Birkir Gunnarsson fór mikinn í íslenska liðinu. vísir/pjetur
Íslenska karlalandsliðið í tennis lauk leik í 11.-12. sæti 3. deildar Davis-bikarsins. Liðið lék um 9.-12. sætið við Liechtenstein og laut í gras 2-1. Mótið fór að þessu sinni fram í San Marinó.

Viðureignin samanstendur af tveimur einliðaleikjum og einum tvíliða. Birkir Gunnarsson vann sinn leik örugglega í tveimur settum, 6-2 og 6-0. Rafn Kumar Bonifacius tapaði hins vegar sinni viðureign 6-3 og 6-2. Drengirnir léku síðan saman í tvíliðaleiknum og lutu að lokum í gras í tveimur settum, 6-3 og 6-4.

Áður hafði liðið átt þrjár viðureignir í undanriðli sínum. Leikirnir gegn Möltu og Georgíu töpuðust en í fyrradag vannst öruggur sigur á Albönum. Georgíumenn og Norðmenn urðu í 1.-2. sæti keppninnar og leika í 2. deild að ári.

Auk Birkis og Rafns mynda þeir Vladimir Ristic og Magnús Gunnarsson, bróðir Birkis, íslenska liðið. Þetta var tuttugasta árið í röð sem íslenska liðið tekur þátt í keppninni en liðið hefur ávallt leikið í 3. eða 4. deild. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×