Erlent

Danir virðast ætla að hafna breytingunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þegar um 42 prósent atkvæða höfðu verið talin voru þetta niðurstöðurnar.
Þegar um 42 prósent atkvæða höfðu verið talin voru þetta niðurstöðurnar. skjáskot
Þegar um 40 prósent atkvæða hafa verið talin virðist ljóst að Danir hafi sagt nokkuð skýrt nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór í landinu í dag.

Þar voru Danir spurðir hvort breyta ætti  einni af fjórum ESB-undanþágum þeirra, nefnilega undanþágu frá samstarfi í innanríkis- og dómsmálum, yfir í sveigjanlega eða valkvæða undanþágu.

Á vef danska ríkisútvarpsins eru útgönguspár birtar reglulega og er þar greint því að um 54 prósent kjósenda hafi hafnað breytingunum en 46 prósent verið þeim fylgjandi. Samkvæmt skoðanakönnun Epinion fyrir danska ríkisútvarpið hafa já-sinnar verið 32 prósent síðustu vikurnar, en nei-sinnar hafa sveiflast frá 34 prósentum þann 16. nóvember, niður í 29 prósent 23. nóvember og svo upp í 36 prósent þann 1. desember.



Aðrar kannanir hafa ýmist sýnt nei-hliðina eða já-hliðina standa betur. Þjóðin virtist þannig vera klofin til helminga, rétt eins og tölur dagsins virðast bera með sér.

Verði tillagan samþykkt, sem litlar líkur virðast vera á úr þessu, getur Danmörk valið að taka þátt í sumum málaflokkum innanríkis- og dómsmála, frekar en að vera skilyrðislaust undanþegin samstarfi í öllum málaflokkum á þessu sviði.

Verði Nei-sinnarnir hins vegar ofan á er ljóst að undanþágurnar verða enn við lýði. Ástæða þess, að efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta nú, er að ýmsar breytingar hafa orðið á löggjöf Evrópusambandsins frá árinu 1993, þegar Danmörk fékk fjórar undanþágur frá Maastricht-sáttmálanum.

Þessar breytingar þýða meðal annars að Europol, lögreglusamstarf ESB-ríkjanna, fer undir yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins í staðinn fyrir að vera áfram milliríkjasamstarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×