Erlent

Hugði á hryðjuverkárásir í kirkjum í París

Atli Ísleifsson skrifar
Franskir fjölmiðlar segja manninn vera 24 ára nema í upplýsingatækni, ættaðan frá Alsír.
Franskir fjölmiðlar segja manninn vera 24 ára nema í upplýsingatækni, ættaðan frá Alsír. Vísir/Getty
Lögregla í Frakklandi hefur handtekið mann vegna gruns um að skipuleggja hryðjuverk í einni eða tveimur kirkjum í höfuðborginni París.

Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra landsins, greindi frá þessu í morgun.

Franskir fjölmiðlar segja manninn vera 24 ára nema í upplýsingatækni, ættaðan frá Alsír.

Cazeneuve sagði lögreglu hafa fundið gögn sem sýndu fram á það með óyggjandi hætti að maðurinn hugðist ráðast gegn kirkjunum á næstunni. Árásirnar áttu að eiga sér stað í guðsþjónustum á sunnudagsmorgni.

Í frétt BBC kemur fram að maðurinn hafi verið handtekinn eftir að hann skaut óvart sjálfan sig og hringdi á sjúkrabíl. Í bíl mannsins fundust svo skotvopn og skjöl um möguleg skotmörk.

Hann verður einnig yfirheyrður vegna gruns um að tengjast morði á konu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×