Erlent

Viðræður við Kúbu eru hafnar

guðsteinn bjarnason skrifar
Joe Biden varaforseti stendur klappandi meðan þingdeildarforsetinn John Boehner hlustar sitjandi á Obama forseta flytja stefnuræðu sína.
Joe Biden varaforseti stendur klappandi meðan þingdeildarforsetinn John Boehner hlustar sitjandi á Obama forseta flytja stefnuræðu sína. fréttablaðið/AP
Aðeins hálfum sólarhring eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti hafði flutt stefnuræðu sína hófust fyrstu formlegu viðræður bandarískra embættismanna við ráðamenn á Kúbu um bætt samskipti ríkjanna.

Í stefnuræðu sinni hvatti Obama þingið til þess að hefja strax á þessu ári undirbúning að því að afnema viðskiptabann á Kúbu, sem hefur verið í gildi í hálfa öld.

Hann sagði stefnubreytinguna gagnvart Kúbu verða til þess að Kúbustjórn hefði ekki lengur neinar „sýndarafsakanir fyrir höftum á Kúbu“, en um leið réttu Bandaríkin Kúbu vinarhönd og hvettu til þess að lýðræðisgildi yrðu í hávegum höfð.

Stefnuræðu sína notaði Obama annars einkum til þess að kynna þinginu eins konar óskalista sinn og taldi upp fjölmörg atriði sem ættu að bæta hag bandarískrar millistéttar. Hann hótaði því jafnframt að beita neitunarvaldi sínu ef þingið tæki upp á því að skerða einhver þeirra réttinda, sem hann hefði náð fram fyrir hönd millistéttarinnar.

Repúblikanar eru í meirihluta á þinginu, þannig að Obama gerir sér væntanlega litlar vonir um að þingið fari að vinna ötullega að því að hrinda í framkvæmd óskalistanum sem hann kynnti í ræðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×