Erlent

The Sun hættir með myndir af berbrjósta konum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Rupert Murdoch að lesa eintak af The Sun.
Rupert Murdoch að lesa eintak af The Sun. Vísir/AFP
Breska blaðið The Sun hefur hætt að birta hina svokölluðu Page 3 eftir rúmlega fjóra áratugi. Síðan skartaði ávalt myndum af berbrjósta stúlku. Síðan hefur lengi sætt gagnrýni.

Guardian hefur eftir heimildum að ákvörðunin hafi verið tekin af eiganda útgáfunnar, Rupert Murdoch, og hans nánasta samstarfsfólki. Þá hefur blaðið eftir heimildum að Page3.com, vefsíða sem birt hefur myndir af síðu 3, muni halda áfram þrátt fyrir að The Sun hætti myndbirtingunum.

Í svari við fyrirspurn blaðsins Times, sem einnig er í eigu Murdoch, segja stjórnendur The Sun að síða þrjú sé ekki á förum, hún verði áfram á milli síðna tvö og fjögur. Times greinir hinsvegar frá því að ekki verði lengur mynd af berbrjósta fyrirsætu á síðunni. Það hafi verið gert í síðasta sinn á föstudag.

Berbrjósta fyrirsætur hafa prýtt síðu þrjú í The Sun allt frá árinu 1970, eða stuttu eftir að Murdoch keypti blaðið. Í febrúar á síðasta ári gaf Murdoch til kynna að hann væri ekki lengur hrifinn af fyrirkomulaginu en þá sagði hann á Twitter að honum þætti það gamaldags en að lesendur væru hrifnir.

Myndunum á síðunni hefur lengi verið mótmælt en síðan í september 2012 hafa 215 þúsund undirskriftir safnast í herferð gegn þessum efnisþætti blaðsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×