Erlent

Dró lengra stráið og vann þingkosningar í Bandaríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
24 ríki Bandaríkjanna nýta sér þá leið að draga strá til þess að skera úr um úrslit ef til jafnteflis kemur
24 ríki Bandaríkjanna nýta sér þá leið að draga strá til þess að skera úr um úrslit ef til jafnteflis kemur Vísir/Getty
Demókratinn Bo Eaton má teljast vera lukkunnar pamfíll en hann sigraði keppinaut sinn í kosningum um sæti á ríkisþingi Missisippi í Bandaríkjunum. Hvernig? Jú, hann dró lengra stráið.

Eaton atti kappi við repúblikann Mark Tullos en hvor um sig fékk 4.589 atkvæði í kosningunum. Samkvæmt lögum ríkisins er því gripið til þess að draga um strá til þess að skera úr um sigurvegara og sá sem dregur það lengra hreppir vinninginn.

Það var ríkisstjóri Missisippi, Phil Bryant, sem sá um athöfnina en Tullos mun reyndar ekki sætta sig við niðurstöðuna og hefur áfrýjað.

Lukka Eaton reyndist örlagarík, ef Tullos hefði dregið lengra stráið hefðu Repúblikanar öðlast svokallaðan ofurmeirihluta á þinginu sem hefði gert þeim mun auðveldara að ná málum í gegn.

Ef til vill kemur það á óvart en 24 ríki Bandaríkjanna nýta sér þá leið að draga strá til þess að skera úr um úrslit ef til jafnteflis kemur og hefur áður þurft að grípa til þess ráðs í bæði Nýju-Mexíkó og Alaska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×