Erlent

Erfið óvissa fram undan

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Leiðtogar kúrda Selahattin Demirtas og Figen Yuksedag, sem bæði eru leiðtogar Lýðræðisflokks Kúrda, fögnuðu tímamótaúrslitum að kvöldi kosningadags.
Leiðtogar kúrda Selahattin Demirtas og Figen Yuksedag, sem bæði eru leiðtogar Lýðræðisflokks Kúrda, fögnuðu tímamótaúrslitum að kvöldi kosningadags. VÍSIR/EPA
Innreið stjórnmálaflokks Kúrda á tyrkneska þingið markar tímamót þar í landi. Salahattin Demirtas, leiðtogi flokksins, segir flokkinn verða fulltrúa allra minnihlutahópa, ekki bara Kúrda.

Allt fram á síðustu ár hafa Kúrdar verið réttlausir að mestu í tyrknesku samfélagi og vart mátt nefna það opinberlega að þeir séu Kúrdar. Þetta hefur þó hægt og rólega verið að breytast og kosningaúrslitin verða að teljast stór áfangi í þá átt.

Mikil óvissa ríkir hins vegar um framhaldið í tyrkneskum stjórnmálum, þar sem enginn flokkur hlaut hreinan meirihluta í kosningunum. Stjórnarmyndunartilraunir verða harla snúnar, ef yfirhöfuð verður reynt að fara þá leið.

Recep Tayyip Erdogan forseti, stofnandi Réttlætis- og þróunarflokksins, fékk þungt högg frá kjósendum á sunnudaginn, þegar hreinn meirihluti flokksins á þingi féll eftir þrettán ár við stjórnvölinn. Þar með er væntanlega útséð um að Erdogan geti fengið þingið til að samþykkja breytingar á stjórnarskrá landsins, sem áttu að tryggja forsetanum aukin völd.

Kjósendur reyndust ekki svo ginnkeyptir fyrir áróðri Erdogans, sem hefur hamrað á því að andstæðingar sínir séu ýmist fulltrúar hryðjuverkamanna eða andsnúnir guði og góðum siðum.

Sjálfur kom hann hins vegar á óvart þegar úrslitin lágu fyrir með því að viðurkenna niðurstöðuna fyrirvaralaust. „Þjóðarviljinn stendur ofar öllu,“ sagði hann.

Ahmet Davotoglu forsætisráðherra þarf nú að kanna möguleika á samsteypustjórn, en við fyrstu sýn blasa þeir ekki við. Aðrir flokkar á þingi eru aðeins þrír: Sá fyrsti er Lýðveldisflokkurinn, höfuðandstæðingur Réttlætis- og þróunarflokksins frá stofnun hans árið 2002.

Annar er Þjóðernishreyfingin, flokkur harðsnúinna þjóðernissinna sem fátt bendir til að vilji taka þátt í stjórnarsamstarfi með Davotoglu. Sá þriðji er svo Kúrdaflokkurinn, sem tyrkneskir ráðamenn hafa helst ekki viljað vita af og vart sjáanlegt að þar geti samkomulag orðið um stjórnarsamstarf.

Stjórnmálaskýrendur hafa velt upp þeim möguleika að Davotoglu forsætisráðherra slíti nú að nokkru tengslin við Erdogan forseta, og fái þá frjálsari hendur við stjórnarmyndunartilraunir. Aðrir sjá enga raunhæfa leiki í stöðunni og spá því að boðað verði til nýrra kosninga áður en langt líður. Það sé eina leiðin til að leysa hnútinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×