Ríkisstjórn Íslands samþykkti í gær tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að setja á fót ráðherranefnd, eða samræmingarnefnd. Henni er ætlað að fjalla um stjórnarfrumvörp, sem leggja á fyrir Alþingi og varða eða geta haft áhrif á málefnasvið fleiri en eins ráðherra.
Þar að auki skal nefndin fjalla um önnur mikilvæg úrlausnarefni í ráðuneytum þar sem samhæfingar er þörf. Í tilkynningu frá Forsætisráðuneytinu segir að mörg dæmi séu um verkefni og löggjöf sem varði málefnasvið fleiri en eins ráðuneytis. Þá segir að slíkar samræmingarnefndir ráðherra hafi lengi verið starfræktar í öðrum löndum.
Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra eiga fast sæti í nefndinni og aðrir ráðherra sitja fundi nefndarinnar í samræmi við umfjöllunarefni hverju sinni.
Kveðið er á um hlutverk forsætisráðherra og forsætisráðuneytisins við samhæfingu innan Stjórnarráðsins í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 71/2013 og lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Í 8. gr. laganna segir að forsætisráðherra beri að gæta þess að verkaskipting á milli ráðherra sé eins skýr og kostur er og að ráðherrar skuli leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið skarast. Þá segir í ákvæðinu að forsætisráðherra skuli beita sér fyrir því að stefna og aðgerðir ráðherra á einstökum sviðum séu samhæfðar ef á þurfi að halda.
Samþykkt var að samræmingarnefndin starfi sem ráðherranefnd samkvæmt 9. – 10. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands.

