Erlent

Segja Blatter óhæfan til að gegna embætti forseta FIFA

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Blatter hefur lofað því að gefa ekki kost á sér 2019.
Blatter hefur lofað því að gefa ekki kost á sér 2019. Fréttablaðið/AFP
Prins Ali dró framboð sitt til baka eftir fyrstu umferð kosninga.
Sepp Blatter var endurkjörinn formaður FIFA í gær. Hann hefur lofað því að láta af embætti árið 2019.

Hann sigraði í fyrri hluta atkvæðagreiðslunnar með 133 atkvæðum. Mótherji hans, Prins Ali Bin al-Hussein, hlaut 73 atkvæði.

Tvo þriðju hluta eða 140 atkvæði þurfti til að vinna kosninguna og lá fyrir að kjósa þyrfti aftur en Prins Ali dró framboð sitt til baka fyrir aðra umferð kosninganna.

„Ég þakka ykkur fyrir að hafa kosið mig til næstu fjögurra ára,“ sagði Blatter.

„Ég verð áfram skipstjóri FIFA-skipsins. Við munum ná því aftur á siglingu. Ég kann vel við ykkur. Ég kann vel við starf mitt. Ég er ekki fullkominn. Enginn er fullkominn. Förum saman af stað. Áfram FIFA!“

Blatter sagðist í sigurræðu sinni ætla að taka ábyrgð á því að endurvekja traust á FIFA og lagði áherslu á ríkt samstarf.

Prins Ali þakkaði fyrr sig þegar hann dró framboð sitt til baka.

„Ég vill þakka ykkur öllum. Þetta hefur verið undursamlegt ferðalag. Ég vil sérstaklega þakka öllum ykkur sem voruð svo hugrökk að kjósa mig.“

Fyrir þingið var það ljóst að evrópsku knattspyrnusamböndin stóðu nærri ein gegn Blatter. Forseti evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA), Michel Platini, sagði á fimmtudaginn að nú væri mælirinn fullur og að Blatter þyrfti að segja af sér. Platini hefur þar að auki ekki útilokað að evrópsk knattspyrnulið sniðgangi næsta heimsmeistaramót.

Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, sagði að Blatter hefði stjórnað FIFA í sextán ár og hann væri ekki maðurinn til að vinna bug á spillingu innan samtakanna.

Þingið var haldið á afar stormasömum tíma en fjórtán háttsettir embættismenn FIFA hafa verið kærðir og sjö handteknir fyrir mútuþægni og spillingu.

Upphaf þingsins gerði lítið til að draga úr stormaseminni en framkvæmdastjóri FIFA tilkynnti þingfulltrúum að þinginu hefði borist sprengjuhótun og í kjölfarið var þingsalurinn rýmdur. Eftir að lögregla hafði leitað á svæðinu gat þinghald haldið áfram.

Fjöldi bakhjarla FIFA er að endurskoða samstarf sitt eftir að kærur voru gefnar út á miðvikudag. Visa er að endurskoða styrk sinn til FIFA. Coca-Cola, Adidas, Nike og McDonalds eru einnig að hugsa sinn gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×