Gasol hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum, síðast gegn Frakklandi í undanúrslitunum í gær.
Gasol skoraði 40 stig, tók 11 fráköst og varði þrjú skot í fimm stiga sigri Spánar, 80-75, eftir framlengdan leik.
Gasol var sérlega öflugur í framlengingunni en í stöðunni 73-75 fyrir Frakkland tók Chicago Bulls-maðurinn yfir. Hann jafnaði metin í 75-75 með tveimur vítaskotum og skoraði svo sex síðustu stig Spánverja með troðslum á síðustu 49 sekúndum leiksins.
Frábær leikur hjá þessum 35 ára leikmanni sem hitti úr 12 af 21 skoti sínu utan af velli (57,1%) og 16 af 18 vítaskotum sínum.
Gasol tók fleiri vítaskot í leiknum en allt franska liðið en eftir leikinn kvartaði Rudy Gobert, miðherji Frakka, yfir því á Twitter að dómgæslan hefði verið Frakklandi óhagstæð en hann fékk sína fimmtu villu fyrir brot á Gasol þegar rúm mínúta var eftir af framlengingunni.
Hard to play when somebody can touch you but you can't touch him! Tough loss it is painfull to lose this way but we will bounce back!!
— rudy gobert (@rudygobert27) September 17, 2015
Gasol er ofarlega á lista í mörgum tölfræðiþáttum á EM. Hann er t.a.m. stigahæsti leikmaður mótsins með 25,6 stig að meðaltali í leik, og með flest varin skot að meðaltali í leik, eða 2,3. Aðeins fjórir leikmenn hafa tekið fleiri fráköst að meðaltali í leik en Gasol (8,4) og svo mætti lengi telja.
Myndband af helstu tilþrifum Gasol gegn Frökkum má sjá hér að neðan.