Erlent

Danir kusu þvert á flokka um ESB

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Forsætisráðherra Danmerkur, segir nauðsynlegt að gera breytingar á Evrópu­sambandinu.
Forsætisráðherra Danmerkur, segir nauðsynlegt að gera breytingar á Evrópu­sambandinu. vísir/EPA
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, segir greinilegt að kjósendur hafi töluverðar efasemdir um Evrópusambandið.

Danir felldu á fimmtudag með naumum meirihluta tillögu stjórnvalda um að afsala sér einni af fjórum undanþágum Danmerkur frá Evrópusambandslöggjöfinni.

Niðurstaðan er áfall fyrir stjórnina, og þýðir meðal annars að Danir geta ekki mikið lengur tekið þátt í lögreglusamstarfi Evrópuríkja, Europol, án þess að semja sérstaklega um fyrirkomulag þátttökunnar.

Í gær birti danska skoðanakönnunarfyrirtækið Epinion tölur sem sýna að í þjóðaratkvæðagreiðslunni á fimmtudag hafi Danir að mestu kosið þvert á flokka.

Þannig skiptust kjósendur Sósíaldemókrata nokkurn veginn í tvennt eftir því hvort þeir kusu með tillögunni eða á móti, þótt forysta flokksins hafi eindregið hvatt menn til að samþykkja.

Og þriðjungur stjórnarflokksins Venstre var á móti tillögunni.

Løkke forsætisráðherra segir greinilegt að gera þurfi breytingar á Evrópusambandinu þannig að það verði „grennra“ og aðildarríkin fái tækifæri til að leysa aðsteðjandi vandamál hvert á sinn máta.

„Þetta er eitt af því sem Cameron í Bretlandi hefur sett á dagskrána á næstunni. Og Danmörk á ­einnig að taka þetta upp,“ sagði Løkke á Facebook-­síðu sinni í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×