Erlent

Vilja konu á 20 dollara seðilinn

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Andrew Jackson prýðir nú seðilinn.
Andrew Jackson prýðir nú seðilinn. Vísir/Getty
Hópur fólks í Bandaríkjunum kýs nú milli fjögurra kvenna sem það telur að eigi skilið að prýða 20 dollara seðilinn. Andrew Jackson, sjöundi forseti Bandaríkjanna, er nú á peningnum. Konurnar sem kosið er á milli eru fyrrum forsetafrúin Eleanor Roosevelt, Wilma Mankiller, fyrsti kvenkyns foringi indíánaættbálks, og mannréttindasinnarnir Harriet Tubman og Rosa Parks.

Ástæða þess að hópurinn einblínir á 20 dollara seðilinn er tvíþætt. Annars vegar vegna tengingar Andrew Jackson við þrautasögu indíána í Bandaríkjunum, en hann skrifaði undir frumvarp árið 1830 sem neyddi indíána til að halda burt af löndum sínum. Hin ástæðan er sú að árið 2020 er hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna í Bandaríkjunum.

Rosa Parks er ein þeirra sem kosið er um.Vísir/Getty
Peningunum ekki breytt síðan 1929

Hópurinn sem stendur fyrir kosningunni kallar sig Women on 20s en ekki hefur verið ákveðið hversu lengi kosningin mun standa yfir. Upprunalega var kosið á milli 100 kvenna þar til konunum var fækkað niður í fjórar. Roosevelt, Tubman og Parks hafa allar fengið yfir 100 þúsund atkvæði hver. Talsmaður hópsins, Susan Ades Stone, segir ekki skrítið að þessar konur hljóti svona mikla athygli. Konurnar séu vel þekkt nöfn sem fólk þekkir frá skólagöngu sinni og að vilji sé fyrir því að fá konu á seðilinn sem hefur haft áhrif á líf fólks.

Hópurinn hefur farið fram á samvinnu við Hvíta húsið til að vekja enn frekari athygli á hugmyndinni og fá fleiri til að kjósa. Myndum á dollaraseðlum Bandaríkjanna hefur ekki verið breytt síðan 1929.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×