Erlent

Vilja að reiðhjólið hljóti friðarverðlaun Nóbels

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Reiðhjólið mengar lítið og svarar því kalli alþjóðasamfélagsins um umhverfisvænan ferðamáta.
Reiðhjólið mengar lítið og svarar því kalli alþjóðasamfélagsins um umhverfisvænan ferðamáta.
Reiðhjólið ætti að fá friðarverðlaun Nóbels á næsta ári að mati tveggja ítalskra útvarpsmanna sem hafa hafið undirskriftasöfnun til að þrýsta á að sú verði raunin.

Aðstandendur útvarpsþáttarins Caterpillar, sem nýtur nokkurra vinsælda á Ítalíu, munu skila Nóbelnefndinni undirskriftunum í febrúar en þeir segja reiðhjólið vera „friðartæki.“

Það hafi þannig aldrei orsakað stríð, ólíkt bifreiðum, sem ganga á eftirsóknarverðri olíu. Þá sé reiðhjólið einnig „lýðræðislegasti samgöngumátinn“ að mati þáttarstjórnandanna Massimo Cirri og Sara Zambotti.

Þau bæta við í rökstuðningi sínum að reiðhjólið kosti að sama skapi samfélagið margfalt minna en akstur bíla, bæði hvað varðar slit á vegum og kostnaðinn sem hlýst af þeim fjölmörgu umferðarslysum sem bifreiðar valda á hverju ári.

Takist þeim ítölsku ætlunarverk sitt bætist fararskjótinn í hóp fjölmargra verðlaunahafa en meðal handahafa eru Barack Obama Bandaríkjaforseti, Evrópusambandið, Túniskvartettinn og hinn kínverski Liu Xiaobo.

Nánar á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×