Erlent

Eru hjónabönd samkynhneigðra varin af stjórnarskrá?

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Stuðningsmenn hjónabanda samkynhneigðra fyrir utan hæstarétt Bandaríkjanna.
Stuðningsmenn hjónabanda samkynhneigðra fyrir utan hæstarétt Bandaríkjanna. vísir/epa
Hjónabandið hefur í þúsundir ára um heim allan táknað samband karls og konu „og allt í einu viljið þið að níu manneskjur breyti því með lagasetingu,“ sagði Stephen G. Breyer hæstaréttardómari í Washington í gær.

Umræða í hæstarétti Bandaríkjanna um hvort hjónabönd samkynhneigðra væru varin af stjórnarskrá fór fram í gær en hún er talin geta markað tímamót þar í landi. Í umfjöllum New York Times um málið kemur fram að þær spurningar sem hæstaréttardómarinn Anthony M. Kennedy velti upp hafi gefið stuðningsmönnum hjónabands samkynhneigðra ástæðu til bjartsýni. Hann virtist þó tvístígandi og vildi fara varlega í málið. Aðrir dómarar stóðu fast á sinni skoðun og vörpuðu umræðurnar ljósi á ólíka sýn þeirra á söguna, hefðir, líffræði og túlkun stjórnarskrárinnar.

Kennedy setti fram þau rök gegn hjónaböndum samkynhneigðra að lítil reynsla væri komin á þau í samanburði við hefðbundin hjónabönd. Síðar lýsti hann þó yfir áhyggjum sínum af því að útiloka samkynhneigð pör frá hjónabandinu sem stofnun.

Kennedy sagði að samkynhneigð pör segðust skilja helgi hjónabandsins. „Þau vita að þau geta ekki fjölgað sér en vilja samt eiga hlutdeild í hjónabandinu til að sýna að þau séu virðingarverð.“ Fjölmiðlar vestanhafs túlka þetta sem svo að Kennedy telji þessi rök gild.

Fjölmiðlar ávarpaðir fyrir utan hæstarétt Bandaríkjannavísir/epa
Helstu rökin gegn hjónaböndum samkynhneigðra voru að hjónabönd snérust ekki um ást heldur um lagalegan rétt barna gagnvart líffræðilegum foreldrum sínum. Eins var bent á að samkynhneigðir væru ekki að leitast eftir að verða hluti af hjónabandinu sem stofnun heldur vildu þeir breyta því sem stofnunin raunverulega er.

Þeir sem aðhylltust hjónabönd samkynhneigðra bentu á að samkynhneigðir eignuðust líka börn. Einnig bentu þeir á að málið snérist um grundvallarmannréttindi. Þeir bentu á að þó skilgreiningin á hjónabandi yrði útvíkkuð þannig að hún ætti einnig við um pör af sama kyni, hefði það engin skaðleg áhrif á hjónabönd gagnkynhneigðra.

Rabbínar mótmæla fyrir utan hæstarétt í Washingtonvísir/afp
Umræðurnar hafa vakið mikla athygli í Bandaríkjunum. Bæði fylgjendur og andstæðingar hjónabanda samkynhneigðra biðu dögum saman fyrir utan dómshúsið í von um að fá sæti í dómssalnum og fylgjast með umræðunum. Hjónabönd samkynhneigðra eru nú þegar lögleg í 37 af 50 fylkjum Bandaríkjanna. Umræðurnar snérust um hvort 14. grein stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að allir séu jafnir fyrir lögum, megi túlka á þann hátt að öllum fylkjum sé skylt að leyfa hjónabönd samkynhneigðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×