Erlent

Erdogan Tyrklandsforseti hamast í kosningabaráttu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kosningaspjöld sjást víða í Tyrklandi þessa dagana. Þarna má sjá andlit þeirra Ahmets Davutoglus forsætisráðherra og Receps Tayyip Erdogan
Kosningaspjöld sjást víða í Tyrklandi þessa dagana. Þarna má sjá andlit þeirra Ahmets Davutoglus forsætisráðherra og Receps Tayyip Erdogan forseta.fréttablaðið/EPA
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur farið víða í kosningabaráttunni undanfarið til að tryggja flokki sínum nægan styrk í þingkosningunum á morgun til að geta náð í gegn stjórnarskrárbreytingum, sem eiga að tryggja honum sjálfum aukin völd.

Sjálfur er hann þó ekki í framboði og má reyndar ekki sem forseti blanda sér í þingkosningar. Slík tæknileg atriði lætur hann samt ekki flækjast fyrir sér.

Flokki hans, Réttlætis- og þróunarflokknum, er spáð nokkuð öruggum þingmeirihluta þrátt fyrir að hafa misst fylgi undanfarið. Barátta Erdogans snýst hins vegar um að flokkurinn fái nægilega mörg þingsæti til að geta breytt stjórnarskrá landsins án aðkomu annarra þingmanna.

Hann vill nefnilega breyta stjórnskipun Tyrklands þannig að þar verði forsetaræði, með svipuðum hætti og í Bandaríkjunum og Frakklandi. Þar með yrðu forsetanum tryggð meiri völd en í núverandi stjórnskipan.

Erdogan var forsætisráðherra Tyrklands í þrettán ár, frá 2003 til 2014, en ákvað að bjóða sig fram til forseta á síðasta ári eftir að hafa unnið jafnt og þétt að því að styrkja völd bæði forseta og stjórnarmeirihlutans. Lokahnykkurinn í því ferli á að verða gildistaka nýrrar stjórnarskrár, sem margir óttast að geri Erdogan nánast að einræðisherra.

Kosningarnar gætu einnig markað tímamót fyrir HDP-flokkinn, sem er stjórnmálaflokkur Kúrda. Flokkurinn virðist eiga möguleika á því að komast yfir tíu prósenta þröskuldinn og þannig ná manni inn á þing í fyrsta sinn í sögunni.

Reyndar hefur flokkurinn verið með fulltrúa á þingi, en það tókst með því að bjóða fram óháða frambjóðendur. Flokkurinn tekur áhættu með því að bjóða fram flokkslista að þessu sinni, því samkvæmt skoðanakönnunum munar litlu á því hvort niðurstaðan verður ofan eða neðan við tíu prósenta þröskuldinn.

Til þess að ná manni inn á þing þarf flokkur að fá 10 prósent atkvæða, sem er óvenju hár þröskuldur.

Óvissan er samt töluverð, bæði vegna hættu á kosningasvindli og vegna þess að engar skoðanakannanir hefur mátt gera síðustu tíu dagana fyrir kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×