Erlent

Enn tilkynnt um dróna sem sveima yfir París

Atli Ísleifsson skrifar
Borgarbúar eru margir uggandi vegna tíðra frétta af drónum í borginni.
Borgarbúar eru margir uggandi vegna tíðra frétta af drónum í borginni. Vísir/AFP
Tilkynnt hefur verið um tíu tilfelli til viðbótar þar sem sést hefur til dróna sem sveima yfir frönsku höfuðborgina París. Lögregla leitar nú fjögurra manna vegna málsins.

Í frétt BBC segir að nýjustu atvikin hafi átt sér stað nærri Eiffel-turninum og fjölda annarra staða lengra frá miðborginni.

Sést hefur til um sextíu óútskýrðra dróna í borginni frá því í október en bannað er að stýra slíkum flugförum án leyfis yfirvalda. Borgarbúar eru margir óttaslegnir vegna málsins, sérstaklega eftir hryðjuverkaárásirnar í borginni í janúarmánuði.

Sést hefur til dróna sveima að næturlagi yfir fjölda helstu kennileita borgarinnar, þar á meðal Elysee-höll Frakklandsforseta og bandaríska sendiráðið.

Talsmaður lögreglu segir að tilkynnt hafi verið um nýjasta atvikið klukkan 22 í gærkvöldi að staðartíma. Lögreglumenn urðu varir við drónann og eltu hann, en misstu að lokum sjónar af honum vegna mikillar umferðar.

Lögreglumenn segja fjóra menn hafa tekið drónann við Porte de Vincennes í austurhluta borgarinnar og tekist að flýja í svörtum bíl út á hringveginn sem umlykur borgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×