Erlent

Tugir látnir í sprengingu í námu í Donetsk

Atli Ísleifsson skrifar
Óttast er um líf 45 manna til viðbótar.
Óttast er um líf 45 manna til viðbótar. Vísir/AP
Að minnsta kosti þrjátíu manns eru látnir eftir að sprenging varð í kolanámunni Zasjadko í Donetsk í austurhluta Úkraínu í morgun.

Talið er að mikill fjöldi hafi slasast og að margir séu enn fastir í námunni. Að sögn Reuters voru um sjötíu manns að störfum í námunni þegar sprengingin varð. Að sögn námuverkamanns sem slapp heill á húfi er mögulegt að um 45 manns séu enn fastir neðanjarðar.

Talsmaður Úkraínuþings segir tala látinna sé nú 32, en talsmaður stjórnar aðskilnaðarsinna segir einungis einn hafa látist. „Við vitum ekkert um þrjátíu fórnarlömb. Við getum ekki staðfest þær upplýsingar,“ segir Aleksej Kudenko, talsmaður aðskilnaðarsinna.

Björgunarsveitum hefur reynst erfitt að ná til staðarins þar sem fyrst þarf að losa eitað gas úr úr námunni. Talið er að gasleki hafi valdið sprengingunni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn þar sem slys verður í Zasjadko-námunni, en árið 2007 fórust hundrað starfsmenn námunnar í slysi.

Náman er nærri flugvellinum í Donetsk-borg þar sem harðir bardagar hafa staðið milli aðskilnaðarsinna og hersveita Úkraínustjórnar síðustu mánuði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×