Erlent

Fagnar aðfinnslum Evrópunefndarinnar

guðsteinn bjarnason skrifar
Eygló Harðardóttir Félagsmálaráðherra segir frumvörpin tvö verða stórt skref fram á við.
Eygló Harðardóttir Félagsmálaráðherra segir frumvörpin tvö verða stórt skref fram á við. fréttablaðið/Vilhelm
„Við höfum verið að vinna í samræmi við þetta og vonum að það gangi vel fyrir sig,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, um athugasemdir Evrópunefndar gegn kynþáttamisrétti, ECRI.

Nefndin gagnrýnir íslensk stjórnvöld meðal annars fyrir að hafa ekki fylgt eftir tilmælum um að hér verði sett lög gegn kynþáttamisrétti.

Eins og skýrt var frá í Fréttablaðinu í gær hafði ráðuneyti Eyglóar, í svari til nefndarinnar í haust, boðað tvö frumvörp nú fyrir áramótin síðustu en þau hafa enn ekki séð dagsins ljós. Eygló segir frumvörpin komin á málaskrá þings og þau verði vonandi lögð fram fljótlega.

„Það hefur tekið ákveðinn tíma að vinna frumvörpin, en við reynum að vinna þetta eins hratt og vel og við getum,“ segir Eygló, en staðfestir jafnframt að ekki sé verið að vinna að neinni heildarlöggjöf um kynþáttamisrétti.

Nefndin gagnrýnir að þessi tvö fyrirhuguðu frumvörp, sem lýst var efnislega í svörum ráðuneytisins til nefndarinnar í haust, gangi ekki nógu langt.

„Ég tel það mjög skiljanlegt að þau vilji sjá okkur ganga mun lengra, en um leið tel ég að þessi frumvörp yrðu stórt skref fram á við fyrir okkur og væru mikil réttarbót,“ segir Eygló. „Síðan má skoða að bæta við fleiri þáttum þegar reynsla er komin á þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×