Erlent

Ríkisstjórn Portúgals hrekst frá völdum

Atli Ísleifsson skrifar
Pedro Passos Coelho hefur gegnt embætti forsætisráðherra Portúgals frá árinu 2011.
Pedro Passos Coelho hefur gegnt embætti forsætisráðherra Portúgals frá árinu 2011. Vísir/EPA
Minnihlutastjórn Portúgals hefur hrakist frá völdum eftir að þingmenn bandalags mið- og vinstriflokka greiddu atkvæði gegn umbótatillögum stjórnarinnar í gær.

Bandalag mið- og hægriflokka, undir stjórn forsætisráðherrans Pedro Passos Coelho, náði meirihluta í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í síðasta mánuði en hefur nú misst meirihluta eftir að hluti þingmanna gekk til liðs við bandalag vinstriflokkanna.

123 þingmenn nýs bandalags mið- og vinstriflokka greiddu atkvæði gegn tillögum stjórnarinnar, en 107 stjórnarþingmenn greiddu atkvæði með.

Í frétt BBC kemur fram að líklegt sé að Sósíalistaflokkurinn, sem hlaut næstflest atkvæði í kosningunum, myndi nýja stjórn sem muni leggja áherslu á að draga úr aðhaldsaðgerðum.

Anibal Cavaco Silva, forseti Portúgals, mun nú annað hvort biðja António Costa, leiðtoga Sósíalistaflokksins, um að mynda nýja ríkisstjórn eða þá biðja fráfarandi minnihlutastjórn að stýra landinu þar til nýjar kosningar fara fram.

Fráfarandi stjórn Passos Coelho er sú skammlífasta í sögu Portúgals frá því að lýðræði var komið á í landinu árið 1974. Passos Coelho leiddi meirihlutastjórn í landinu frá 2011 til 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×