Fótbolti

Dempsey í tveggja ára bann fyrir að rífa í sundur minnisbók dómara | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Clint Dempsey spilar ekki bikarleik fyrr en 2018.
Clint Dempsey spilar ekki bikarleik fyrr en 2018. vísir/getty
Clint Dempsey, fyrirliði bandaríska landsliðsins í knattspyrnu, spilar ekki bikarleik fyrir félagslið sitt, Seattle Sounders, næstu tvö árin.

Hann var úrskurðaður í sex leikja eða tveggja ára bikarbann fyrir atvik sem kom upp í 32 liða úrslitum opnu bikarkeppninnar í Bandaríkjunum.

Bannið virkar þannig að þó Seattle nái sex leikjum í bikarnum á næstu tveimur tímabilum, 2016 og 2017, gildir harðari refsingin og mun hann ekki spilar bikarleik fyrr en 2018.

Seattle tapaði fyrir erkifjendunum í Portland Timbers, 3-1, í 32 liða úrslitunum 16. júní og var Dempsey rekinn út af í uppbótartíma.

Jürgen Klinsmann ætlar að ræða við sinn mann.vísir/getty
Hann var verulega ósáttur við dómara leiksins og byrjaði á því að slá minnisbók dómarans úr höndum hans. Fyrir það fékk hann þó ekki nema gult spjald, en þegar Dempsey tók svo bókina upp og reif hana í sundur fékk hann að líta beint rautt spjald.

Hann fékk þriggja leikja bann í öllum keppnum fyrir rauða spjaldið og var ekki með Seattle þegar liðið tapaði fyrir San Jose Sharks á laugardaginn.

Bandaríski landsliðsfyrirliðinn missir einnig af leikjum gegn Philadelphia og Portland í deildinni í þessari viku en verður kominn úr banni áður en landsliðið mætir Gvatemala í æfingaleik fyrir Gullbikarinn 3. júlí.

„Þetta er bara eitthvað sem ég sá á netinu. Svona vill enginn sjá, en þetta eru mistök og mistök eru gerð. Auðvitað mun ég ræða við Clint um þetta þegar hann kemur til æfinga hjá landsliðinu fyrir leikinn gegn Gvatemala,“ sagði Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, í viðtali á heimasíðu bandaríska knattspyrnusambandsins.

„Þetta er eitthvað sem enginn vill ganga í gegnum. Það vill enginn fá rauð spjald og fara í leikbann. Þetta er samt hluti af leiknum. Við munum bara ræða þetta þegar við hittumst og taka næstu skref út frá því,“ sagði Klinsmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×