Fótbolti

Klopp ekki til í Mexíkó

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá Bayern München.
Klopp hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá Bayern München. vísir/getty
Jürgen Klopp hafnaði því á dögunum að taka við mexíkóska landsliðinu í fótbolta. Þetta staðfesti Guillermo Cantu, stjórnarmaður hjá mexíkóska knattspyrnusambandinu, í samtali við þarlenda fjölmiðla.

Klopp er sem stendur í fríi frá þjálfun en hann hætti sem knattspyrnustjóri Borussia Dortmund í vor eftir sjö ára starf.

Mexíkóska landsliðið er í þjálfaraleit eftir að hinum litríka Miguel Herrera var sagt upp störfum í sumar eftir að hann réðist á blaðamann.

Að sögn Cantu hefði Klopp verið góður kostur fyrir mexíkóska landsliðið sem er í 26. sæti á styrkleikalista FIFA. Umboðsmaður Klopp hafi hins vegar tjáð honum að Þjóðverjinn ætli ekki að fara aftur út í þjálfun á næstunni.

Klopp náði frábærum árangri með Dortmund en hann gerði liðið tvívegis að þýskum meisturum, einu sinni að bikarmeisturum auk þess sem liðið komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×