Erlent

Áform um þjóðarmorð ekki sönnuð

guðsteinn bjarnason skrifar
Dómarar dómstólsins við upphaf dómsuppkvaðningar í gær.
Dómarar dómstólsins við upphaf dómsuppkvaðningar í gær. fréttablaðið/AP
Hvorki Serbar né Króatar geta talist sekir um þjóðarmorð í bænum Vukovar og víðar í Króatíu árið 1991. Þetta er niðurstaða Alþjóðadómstólsins í Haag, sem hefur haft málið til meðferðar síðan 1999.

Dómstóllinn segir engar sannanir hafa fundist fyrir því að Serbar eða Króatar hafi haft áform um að fremja þjóðarmorð. Engu að síður hafi alvarlegir glæpir verið framdir á báða bóga í borgarastríðinu í Króatíu á árunum 1991 til 1995, þegar Júgóslavía var að liðast í sundur. Þeir glæpir séu í reynd sambærilegir við þjóðarmorð, en teljist ekki vera þjóðarmorð nema sérstakur ásetningur um það hafi verið fyrir hendi.

„Það sem yfirleitt eru kallaðar þjóðarhreinsanir teljast ekki vera þjóðarmorð,“ sagði Peter Tomka, forseti dómstólsins, þegar hann las upp niðurstöðuna í gær. „Athafnir þjóðarhreinsunar geta verið partur af áætlun um þjóðarmorð, en einungis ef fyrir hendi er ásetningur um útrýmingu hópsins.“

Stríðsátök hófust í Króatíu vorið 1991, nokkrum vikum áður en Króatar lýstu yfir stofnun sjálfstæðs ríkis og þar með aðskilnaði frá Júgóslavíu. Serbneskir íbúar Króatíu voru ekki sáttir, fóru í stríð og fengu hjálp frá serbneska hernum. Borgarastyrjöldinni lauk ekki fyrr en árið 1995 og hafði þá kostað allt að 20 þúsund manns lífið. Hundruð þúsunda hröktust að heiman.

Dómstóllinn hvatti stjórnvöld í bæði Króatíu og Serbíu til þess að starfa náið saman, meðal annars að því að bjóða fórnarlömbum átakanna viðeigandi skaðabætur.

Stjórnvöld beggja ríkjanna lýstu yfir vonbrigðum með niðurstöðu dómstólsins, en samskipti Serbíu og Króatíu hafa skánað mjög síðustu árin.

Breska útvarpið BBC hefur það eftir Ivica Dacic, utanríkisráðherra Serbíu, að þessi dómsúrskurður sé afar mikilvægur fyrir samskipti ríkjanna: „Með þessu lýkur sennilega ferli sem staðið hefur yfir í 15 til 20 ár, og um leið lýkur baráttunni um að sanna hver sé versti glæpamaðurinn.“

Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur áður dæmt í máli tengdu borgarastyrjöldinni í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu. Árið 2007 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Serbía hafi ekki framið þjóðarmorð þegar átta þúsund menn voru myrtir í Srebrenica í Bosníu. Í þeim úrskurði voru serbnesk stjórnvöld hins vegar sögð hafa brotið alþjóðalög með því að hindra ekki fjöldamorðin.

Þjóðarmorð

Samkvæmt alþjóðasamningi gegn þjóðarmorðum frá árinu 1948 er þjóðarmorð skilgreint þannig, að í því felist athæfi sem framið er með ásetningi um að eyða, að hluta eða í heild, þjóðernis- eða trúarhópi með því að:

  • Drepa einstaklinga sem tilheyra hópnum;
  • Valda einstaklingum, sem tilheyra hópnum, alvarlegu líkamlegu eða andlegu tjóni;
  • Vísvitandi skapa hópnum lífsskilyrði, sem eiga að hafa í för með sér útrýmingu hans að hluta eða í heild;
  • Grípa til aðgerða sem ætlað er að koma í veg fyrir fæðingar innan hópsins;
  • Flytja börn, sem tilheyra hópnum, með nauðung yfir í annan hóp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×