Innlent

Bertie-sófi sagður á meiri afslætti en raunverulega var í boði

Jakob Bjarnar skrifar
Eva María markaðsstjóri segir að þau hjá Pier líti málið mjög alvarlegum augum en um mannleg mistök var að ræða.
Eva María markaðsstjóri segir að þau hjá Pier líti málið mjög alvarlegum augum en um mannleg mistök var að ræða.
Verslunin Pier auglýsti nýverið Bertie-sófa með tíu prósenta afslætti, verð nú 135 þúsund en áður 150 þúsund tæp. Svo óheppilega vildi hins vegar til að upprunaleg verðmerking hafði ekki verið fjarlægð og þar segir að tveggja sæta Bertie-sófi sé á 130 þúsund krónur.

Með öðrum orðum virðist sem verslunin sé að blekkja viðskiptavininn þannig að hann telji afsláttinn meiri en hann í raun er. Reyndar er það svo að sófinn er dýrari á „afslætti“ en hann kostaði áður, fyrir útsölu.

Finnst sem hún hafi verið höfð að fífli

Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir náði mynd af þessu og hefur hún vakið gríðarlega athygli, og hefur henni nú, þegar þetta er skrifað, verið deilt 1.333 sinnum, en myndina tók Drífa Björk í Pier á Korputorgi.

Drífa Björk segir fyrirtæki vera að lítillækka saklausa viðskiptavini með svona prettum.
„Ég var nýbúin að versla þarna fyrir talverða upphæð og fara með það útí bíl þar sem ég var að taka heimilið mitt í gegn og fór svo aftur inn því mig langaði svo í þennan sófa. Þegar ég rak svo augun í þetta þá leið mér eins og ég hefði verið höfð að algjöru fífli að hafa verið að versla þetta allt og hugsanlega á yfirverði,“ segir Drífa Björk. 

„Ég á fyrirtæki sjálf svo ég stóð mig samt einhverra hluta að því að vorkenna eigandanum en mér finnst bara svo rosalega skítt að fyrirtæki séu að lítilækka saklausa viðskiptavini sína sem eru í góðri trú að versla við fyrirtækið.. Ég get ekki sagt að ég munu reikspóla á útsölur í framtíðinni og halda að ég sé að gera rosa góð kaup.“

Pier lítur málið mjög alvarlegum augum

Markaðsstjóri Pier er Eva María Grétarsdóttir og hún segir að henni sé vel kunnugt um málið enda máttur internetsins mikill. „Þetta eru mannleg mistök. Við erum með gríðarlegt magn af vöru og erum að merkja marga hluti. Þetta kerfi okkar er gamaldags, við erum að slá handslá þetta inn. Það er auðvelt að ýta á vitlausan takka,“ segir Eva María.

Hún dregur engan dul á að sér er brugðið vegna þessa og henni þykir þetta afskaplega leitt. „Við tökum þetta alvarlega og sjáum til að þetta komi ekki fyrir aftur. Við erum ekki búð sem erum í að blekkja okkar viðskiptavini og leggjum okkur fram um að vera með gott verð, og við biðjumst afsökunar. Við tökum á þessu og viljum ekki að svona hlutir gerist aftur. Og reynum að láta þetta ekki slá okkur út af laginu.“

Verslanir hafa ýmis ráð til að komast hjá ákvæðum

Vísir ræddi við Hildigunni Hafsteinsdóttur, lögfræðing hjá Neytendasamtökunum og hún segir mjög algengt að fólk kvarti undan einmitt þessu, að upprunalegt verð sé sagt hærra en það var til að gefa ríflegri afslátt til kynna en raunverulega er um að ræða. Þó eru um þetta skýr ákvæði, en Neytendasamtökin eiga ekki marga kosti í stöðunni aðra en treysta því að verslanir fari eftir þeim. Ekki er auðvelt við þetta að eiga því ef takast á að færa sönnur á slíkt þá þarf að kalla eftir bókhaldsgögnum. Og búðir hafa ýmsar leiðir til að komast hjá þessu, til dæmis fá einhver vin til að kaupa vöruna á því verði sem um er talað ef mál af þessu tagi koma upp, sem og ef prósentutölur eru eitthvað skrýtnar. Og þá er þeim vísað til Neytendastofu.

Vilja segja afsláttinn meiri en hann er

Daði Ólafsson er lögfræðingur hjá Neytendastofu og hann tekur í sama streng og Hildigunnur. Fyrirtæki verði að geta sýnt fram á að þau hafi selt á fyrra verðinu. „Ef ekki höfum við gripið inni og jafnvel beitt sektum.“

En, er þetta algengt?

„Já, Já, við fáum mikið af ábendingum um svona tilvik. Og það eru nokkrar ákvarðanir á ári sem varða þetta atriði.“

Daði segir mjög algengt að mál sem þessi komi til kasta neytendastofu.
Daði segir að verslunarmenn vilji margir freistast til að segja afsláttinn meiri en hann raunverulega er. „Við höfum séð það í einhverjum tilvikum að menn eru að hækka verðið í einn dag, bara til að geta sett það svo á tilboð rétt á eftir. Það er algengur praxís.“

Neytendastofa krefur fyrirtæki reglulega um gögn

Daði segist ekki geta tjáð sig um afmörkuð dæmi og orð hans eiga ekkert sérstaklega við um þetta tiltekna mál, en það er sem sagt algengt að Neytendastofu berist ábendingar frá neytendum og svo keppinautum um að tilboð feli ekki í sér raunverulega verðlækkun. „Neytendastofa getur krafið fyrirtæki um sönnun þess að vara/þjónusta hafi verið seld á tilgreindu fyrra verði. Geti fyrirtæki ekki sýnt fram á það þá getur Neytendastofa bannað háttsemina og/eða beitt fyrirtækið stjórnvaldssektum.“

Neytendastofa krefur fyrirtæki reglulega um gögn úr sölukerfi leiki grunur á að um brot sé að ræða. Sum mál enda með formlegri stjórnvaldsákvörðun sem er birt á vefnum en önnur mál enda með bréflegri ákvörðun sem ekki er birt opinberlega. „Það er ólöglegt og óheiðarlegt gagnvart neytendum og keppinautum að kynna plattilboð. Fyrirtæki mega búast við sektum ef þau eru staðin að verki,“ segir Daði.

...

Athugasemd: Reikningskunnáttan brást blaðamanni í upphaflegu útgáfu þessarar fréttar, en þá var sagt að aflátturinn væri fimm þúsund í raun en ekki fimmtán. Reyndin er að varan var auglýst dýrari á útsölu en hún var áður seld á. Þetta hefur nú verið lagfært og eru lesendur beðnir velvirðingar á mistökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×