Erlent

Hettuklæddir menn skutu að lögreglumönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérsveitir lögreglunnar umkringja nú stórt svæði í Marseille.
Sérsveitir lögreglunnar umkringja nú stórt svæði í Marseille. Vísir/AFP
Hettuklæddir menn eru sagðir hafa skotið að lögreglumönnum með Kalashnikov árásarrifflum í borginni Marseille í Frakklandi. Lögreglumenn hafa nú lokað stórum hluta borgarinnar og hafa sérsveitir verið sendar á vettvang.

Svæðið sem um ræðir heitir Castellane en glæpatíðni þar er sögð vera mjög há. Um sjö þúsund íbúum borgarinnar hefur verið skipað að halda sér heima fyrir. Komið hefur til áfloga á milli foreldra sem vilja sækja börn sín á nærliggjandi leikskóla og lögreglumanna.

Öryggisstig í Frakklandi hefur verið gífurlega hátt frá því að árás var gerð á skrifstofu Charlie Hebdo í París. Engin meiðsli hafa verið tilkynnt. Enginn lögreglumaður varð fyrir skotum, þegar skotið var á bíl þeirra.

Eins og sjá má á þessu myndbandi er viðbúnaður lögreglu mikill.


Tirs de Kalachnikov : forte tension cité de la... by LaProvence
Le Figaro segir frá því að tveir hópar manna, fimm til tíu manns í hvorum hóp, hafi verið að berjast sín á milli um eiturlyf.

Á vef Sky News segir að mennirnir hafi skotið að lögreglubíl sem kom á vettvang vegna tilkynningar um átök þeirra. AP fréttaveitan hefur eftir embættismanni í Marseille að byssumennirnir hafi skotið að lögreglumönnum og hafi einnig skotið út í loftið af handhófi.

Samkvæmt Independent mun forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, heimsækja borgina seinna í dag. Þar ætlaði hann að kynna áætlun stjórnvalda um að draga úr glæpum í borginni og að auka lífsgæði.

Morðtíðni þykir há í borginni þar sem í flestum tilfellum er um að ræða átök glæpagengja.

Lögreglan telur hugsanlegt að árásarmennirnir séu farnir af svæðinu, en ætla að leita þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×