Fyrrum NFL-leikmaðurinn Aaron Hernandez var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi og á engan möguleika á náðun.
Kviðdómur dæmdi hann sekan um að hafa myrt Odin Lloyd árið 2013.
Hernandez var ískaldur er dómurinn var lesinn upp. Sýndi engin svipbrigði. Margir í réttarsalnum grétu aftur á móti.
Hann var færður í handjárn skömmu eftir að dómur var felldur og hans bíður vist í steininum þar til hann geispar golunni.
Þó svo búið sé að dæma í þessu máli á enn eftir að taka fyrir mál á hendur honum þar sem hann er ákærður fyrir tvö morð árið 2012. Sönnunargögn gegn honum í því máli eru talin sterkari en í því máli sem verið var að dæma hann í.
Hernandez var stjarna í liði New England Patriots og nýbúinn að fá stóran samning hjá félaginu er hann var ákærður fyrir morðið á Lloyd.
