Erlent

Samkomulag við Íran í smíðum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mohammad Javad Zarifk, utanríkisráðherra Írans.
Mohammad Javad Zarifk, utanríkisráðherra Írans. Vísir/AP
Samkvæmt bráðabirgðasamkomulagi Bandaríkjanna og Írans munu Íranar senda til Rússlands megnið af þeim geislavirku efnum sem þeir gætu notað til að búa til kjarnorkuvopn úr.

Þessu skýrðu tveir stjórnarerindrekar í Vínarborg AP-fréttastofunni frá í gær, en vildu ekki láta nafns síns getið þar sem þeir hafa ekki heimild til að ræða efni viðræðnanna.

Viðræður um lausn á deilu Bandaríkjanna og Írans um kjarnorkumál hafa staðið yfir mánuðum saman og átti þeim upphaflega að ljúka í nóvember, en var frestað fram yfir áramót.

Enn er verulegur ágreiningur um ýmis atriði, en í desember tókst samninganefndum ríkjanna að koma sér saman um lista yfir ágreiningsmálin og mögulegar lausnir á þeim flestum, ásamt því að tilgreina í hverju ágreiningurinn um útistandandi mál er fólginn.

Íranir hafa jafnan fullyrt að þeir hafi engan áhuga á að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Kjarnorkuáætlun þeirra miði eingöngu að því að nota kjarnorkuna með friðsamlegum hætti til orkuframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×