Erlent

Sex milljónir hlýða á páfa í úrhellisrigningu

Frans Páfi baðar sig í mannfjöldanum á Filippseyjum.
Frans Páfi baðar sig í mannfjöldanum á Filippseyjum. Vísir/AP
Sex milljónir manna létu úrhellisrigningu ekki stöðva sig þegar Frans páfi mætti til að ávarpa mannfjöldann í Maníla, höfuðborg Filippseyja.

Federico Lombardi, talsmaður Páfagarðs, segir að yfirvöld á Filippseyjum hafi staðfest þessa tölu og jafnframt að þarna hafi verið met slegið. Þegar Jóhannes Páll páfi II. flutti messu á sama stað árið 1995 hafi áheyrendafjöldinn verið fimm milljónir, og þótti mikið.

Frans páfi helgaði heimsókn sína hinum fátæku og féll boðskapur hans í góðan jarðveg hjá fólki á Filippseyjum þar sem fátækt er víða mikil.

„Hann ann fátækum og fólki eins og okkur,“ sagði Emmie Toreras, 38 ára kona sem hafði brugðið plastpoka yfir sig til að verjast rigningunni. Hún sagðist hafa sofið í almenningsgarðinum þar sem páfi ávarpaði mannfjöldann frá því á föstudag til að tryggja að hún kæmist örugglega að. „Það var blessun að við sáum hann. Þótt við séum gegnblaut í rigningunni þá líður okkur vel.“

Frans hefur verið á ferðinni um Asíulönd í eina viku. Hann kom fyrst við á Srí Lanka á mánudaginn var og lauk ferðinni á Filippseyjum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×