Erlent

Viðbrögðin yrðu ekki marktæk

Guðsteinn Bjarnason skrifar
John Chilcot. Formaður nefndar sem hefur haft fimm og hálft ár til að rannsaka tildrög Íraksstríðsins.
John Chilcot. Formaður nefndar sem hefur haft fimm og hálft ár til að rannsaka tildrög Íraksstríðsins.
John Chilcot hefur staðfest að niðurstöðuskýrsla rannsóknar um ákvarðanatökur breskra stjórnvalda varðandi Írakstríðið verði ekki birt fyrr en eftir þingkosningar, sem haldnar verða í maí næstkomandi.

Ástæðuna segir hann vera þá, að fyrir kosningarnar verði ekki nokkur leið að leggja mat á viðbrögð þeirra sem gagnrýndir eru í skýrslunni. Frá þessu er skýrt á vef breska dagblaðsins The Guardian og fleiri breskum fréttamiðlum.

Nefndin hóf störf árið 2009 og fékk það verkefni að rannsaka ofan í kjölinn þátttöku Bretlands í Íraksstríðinu í von um að geta dregið af henni einhvern lærdóm.

Í bréfi til Davids Camerons forsætisráðherra skýrir Chilcot jafnframt frá því að með skýrslunni verði birt 29 minnisblöð sem Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, hafi sent til George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta.

Margir breskir stjórnmálamenn hafa sagt þær tafir, sem orðið hafa á birtingu skýrslurnar, óréttlætanlegar með öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×