Erlent

Liðsauki kallaður út

guðsteinn bjarnason skrifar
Úkraínskir hermenn bera félaga sinn til grafar, en hann féll í átökum við uppreisnarmenn.
Úkraínskir hermenn bera félaga sinn til grafar, en hann féll í átökum við uppreisnarmenn. fréttablaðið/AP
Uppreisnarmenn í austanverðri Úkraínu segjast ætla að kalla fjölda manns til liðs við sig til að berjast við úkraínska stjórnarherinn og stuðningssveitir hans.

Alexander Sakhartsjenkó, leiðtogi uppreisnarmanna, segir að leitað verði til sjálfboðaliða og liðsöfnunin eigi að hefjast innan tíu daga.

„Þetta er gert til þess að stækka her okkar upp í hundrað þúsund manns,“ sagði hann við fjölmiðla. „Það þýðir ekki að við ætlum að bæta við okkur hundrað þúsund manns, heldur að her alþýðulýðveldanna í Donetsk og Luhansk verði samtals 100 þúsund manna lið.“

Hörð átök hafa verið í landinu undanfarnar vikur. Tilraunir til þess að semja um vopnahlé hafa allar farið út um þúfur og engin lausn er í sjónmáli.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Christopher Miller, blaðamanni í Úkraínu, að afar ólíklegt sé að nægilega margir sjálfboðaliðar fáist. Líklegra sé að fá eigi fleiri rússneska hermenn til liðs við úkraínsku uppreisnarmennina.

Rússnesk stjórnvöld hafa ávallt neitað því að rússneskir hermenn hafi farið til Úkraínu að berjast, en bæði úkraínsk og vestræn stjórnvöld hafa ítrekað fullyrt að þúsundir rússneskra hermanna hafi barist með uppreisnarliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×