Menning

Geta tvær manneskjur búið til byltingu?

Magnús Guðmundsson skrifar
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir leita að jafnvægi í Tjarnarbíói á sunnudagskvöldið.
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir leita að jafnvægi í Tjarnarbíói á sunnudagskvöldið.
PLANE er samstarfsverkefni danshöfundanna og dansaranna Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur og Katrínar Gunnarsdóttur en þær hafa unnið saman í tæp tíu ár, fyrst undir formerkjum Íslensku hreyfiþróunarsamsteypunnar, en síðan sem dúett og er þetta annað verkið sem þær tvær setja upp saman. Fyrir fyrri sýninguna, Coming Up, hlutu þær Grímuverðlaunin 2013 sem danshöfundar ársins.

Melkorka segir sýninguna nú hafa verið lengi í gerjun þó svo aðalvinnan hafi farið í gang í janúar. „Það er ákveðinn skyldleiki á milli fyrri sýningarinnar okkar og þessarar þar sem þær báðar byggja á ákveðnum hugtökum leikhússins. Að þessu sinni er rauði þráðurinn jafnvægi og það hugtak hefur leitt okkur víða.

Jafnvægi er hreyfihugtak og samfélagslega séð erum við til að mynda að skoða lýðræði og almennt samfélagslegt jafnvægi. Við notum okkur sjálfar, líkama okkar og hreyfingar sem andstæður til þess að finna jafnvægi, enda erum við Katrín í senn ólíkar í útliti en líkar í hugsun. Við vinnum með andstæður á sem flestum flötum og leikmyndin vísar í það sem er venjulegt og óvenjulegt í senn.

Stundum þarf að raska jafnvæginu, t.d. ef horft er til lýðræðis eða samfélagsins almennt, en við endurheimt jafnvægisins er staðan orðin betri og stöðugri en áður. Þannig spyrjum við okkur hvernig tvær manneskjur geta búið til byltingu? Geta tvær manneskjur komið af stað byltingu? Er það hægt með tveimur dönsurum á sviði?“

Melkorka segir að mikilvægur hluti af sýningunni sé að þær myndi í raun hljóðmyndina sjálfar á sviðinu. „Við notum hljóðkerfi sem tekur upp og spilar aftur hljóðin sem við myndum innan sýningarinnar og með því myndast eins konar hugleiðsluheimur, okkar heimur.

Við gerðum þetta einnig í fyrri sýningunni okkar en núna er áherslan á að þetta sé hljóðheimur og hreyfingaheimur að kallast á. Hreyfingar leiða af sér dáleiðandi ástand þar sem erfitt er að geta sér til um hver er með og hver er á móti. PLANE er sýning þar sem tveir líkamar halda sig á línunni, hlið við hlið, skref fyrir skref.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×