Erlent

Heimila ekki frjálsa för að fullu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á fund hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í desember. Aurelia Frick-Muggli, utanríkisráðherra Liechtenstein (lengst til hægri) ræðir hér við Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, og Federicu Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóra ESB.
Á fund hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í desember. Aurelia Frick-Muggli, utanríkisráðherra Liechtenstein (lengst til hægri) ræðir hér við Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, og Federicu Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóra ESB. Fréttablaðið/EPA
Liechtenstein uppfyllir ekki skuldbindingar sínar varðandi frjálsa för og búsetu fólks á Evrópska efnahagssvæðinu, að mati ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.

Í tilkynningu ESA kemur fram að tilskipunin eigi að tryggja íbúum innan EES fullt frelsi til ferða, búsetu og starfa innan svæðisins.

Fram kemur að ESA hafi haft sérstakt eftirlit með EES-löndunum þremur varðandi framkvæmd tilskipunarinnar og að í apríl í fyrra hafi Liechtenstein lagað löggjöf sína þannig að mætt hafi verið flestum athugasemdum stofnunarinnar. Þá hafi landið lýst vilja sínum til að leysa mál sem út af standi.

„Samt sem áður hefur Liechtenstein ekki lagað löggjöf sína að fullu að lögum EES,“ segir í tilkynningu ESA. Því hafi stofnunin í gær gefið út rökstutt álit vegna brota landsins, þar sem enn séu skorður settar við frjálsri för fjölskyldumeðlima íbúa EES.

Þá verði Liechtenstein að afnema skorður sem fólki búsettu þar, með ríkisfang innan EES, eru settar varðandi atvinnu í öðru EES landi.

Bregðist Liechtenstein ekki við álitinu og bæti úr innan tveggja mánaða kann ESA að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×