Erlent

Sóttu hermenn sína og menningarmuni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hermennirnir koma inn í bæinn Kobane eftir förina. Um 600 hermenn og 100 skriðdrekar tóku þátt í aðgerðinni.
Hermennirnir koma inn í bæinn Kobane eftir förina. Um 600 hermenn og 100 skriðdrekar tóku þátt í aðgerðinni. vísir/ap
Fjöldi tyrkneskra hermanna fór í björgunarleiðangur yfir landamærin til Sýrlands í fyrrinótt og bjargaði þaðan um fjörutíu kollegum sínum. Þeir höfðu verið umkringdir í marga mánuði af hermönnum Íslamska ríkisins við það að verja menningarminjar. Sýrlenska ríkisstjórnin sagði aðgerðina alvarlega og að stjórnvöld í Ankara myndu þurfa að svara fyrir hana.

Drónar, skriðdrekar og flugvélar voru meðal þeirra tækja sem notuð voru í aðgerðinni auk hundraða almennra hermanna. Þetta er í fyrsta skipti sem tyrkneskir hermenn fara yfir landamærin síðan borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst. Ekki kom til átaka en einn lést í leiðangrinum af slysförum.

„Allt gekk að óskum. Þetta var aðgerð sem stenst allar kröfur þjóðarréttarins og ekki er hægt að setja út á okkar framgöngu á nokkurn hátt,“ segir Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands. Hann sagði að Tyrkir hefðu ekki beðið um leyfi fyrir förinni en látið Sýrlendinga vita um leið og hún hófst.

„Ríki sem passa ekki upp á menningararfleið sína eiga enga framtíð,“ var haft eftir Davutoglu við sama tilefni.

Tyrkir létu sér ekki nægja að fjarlægja hermennina heldur fluttu gröfina til. Í yfirlýsingu frá tyrkneska utanríkisráðuneytinu segir að gröfin sé enn í Sýrlandi, skammt frá þorpinu Emesi við landamærin.

Hermennirnir höfðu staðið vörð um gröf Suleymans Shah, en hann var uppi um aldamótin 1200. Barnabarn Shah var Osman I. en hann kom Ottóman-veldinu á fót árið 1299. Sagan segir að Shah hafi drukknað í ánni Euprates á för sinni um svæðið.

Gröfin var 37 kílómetrum sunnan við landamæri Tyrklands og Sýrlands, ekki langt frá kúrdísku borginni Kobane þar sem lengi hefur verið barist.

Í lok stríðs Frakka og Tyrkja árið 1921 var undirritaður sáttmáli um landamæri Tyrklands og Sýrlands. Þar var tekið fram að gröf Shah skyldi teljast tyrkneskt yfirráðasvæði og að Tyrkir fengju heimild til að verja hana og draga fána sinn þar að húni. Hún stóð nú að vísu tæpum hundrað kílómetrum norðar en hún gerði upphaflega. Árið 1973 var gröfin færð nær Tyrklandi til að koma í veg fyrir að hún eyðilegðist í miklum flóðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×