Páll Halldórsson, formaður BHM, segir ríkið kynna greinargerð sína vegna málarekstursins í dag og þá skýrist kannski staðan. Þau séu hins vegar öðru vísi vaxin en mál Starfsgreinasambandsins þar sem verkfallskosningar voru dæmdar ólögmætar í Félagsdómi fyrir helgi.
„Við hefðum talið nær að leysa deiluna en standa í einhverjum lagaþrætum,“ segir Páll, en ríkið gerir athugasemdir við verkfallskosningu í félögum BHM þar sem bara hluti félagsmanna fer í verkfall.

„Og ég reyndar sé ekki skynsemina í því að einhver meirihluti félags geti skikkað minnihluta í verkfall,“ segir Páll.
Málsókn ríkisins segir Páll snúa að náttúrufræðingum, matvæla- og næringarfræðingum, lögfræðingum, ljósmæðrum, leikstjórum og háskólamenntuðum starfsmönnum Stjórnarráðsins.
Varðandi það hvort sú ákvörðun ríkisins að vísa þessum málum til Félagsdóms setji deiluna í hnút þá segir Páll sitt fólk nú reyna að halda jafnvægi sínu. „Við snúum okkur bara að því að finna lausnir. En það er alveg ljóst að þetta hjálpar ekki til í deilunni.“
Þá segir Páll að næsti fundur í deilum félaga BHM við ríkið sé á morgun, en hefur ekki mjög miklar væntingar til niðurstöðu á þeim fundi.
„Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að ríkinu liggi ekkert á og sé þá frekar í málaferlum og einhverjum slíkum leikjum.“
BHM geri hins vegar ráð fyrir að verkföll hefjist í næstu viku. Falli mál með ríkinu í Félagsdómi þá gerist ekki annað en verkfallsaðgerðir þeirra félaga tefjist aðeins. Aðgerðir hinna standi.
Fyrir liggur hins vegar að verkfallsaðgerðir félaga Starfsgreinasambandsins tefjast um tvær til þrjár vikur, en til stóð að þau verkföll hæfust 10. apríl næstkomandi.
Samtök atvinnulífsins segja á vef sínum að niðurstaða Félagsdóms í þeim málum hafi ekki átt að koma á óvart því árið 2011 hafi komið dómur um að sameiginleg atkvæðagreiðsla stéttarfélaga um verkfallsaðgerðir sé andstæð lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
Sjálfstæða atkvæðagreiðslu þurfi hjá hverju félagi fyrir sig um boðun verkfalls.
„Það kom því á óvart að SGS færi af stað með sameiginlega atkvæðagreiðslu sem vitað var frá upphafi að ekki stæðist lög.“