Erlent

Rússar sögðu enga hættu á ferðum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Reykur stendur upp af kjarnorkukafbátnum Orel, sem hefur verið í slipp í nokkur ár.
Reykur stendur upp af kjarnorkukafbátnum Orel, sem hefur verið í slipp í nokkur ár. Vísir/EPA
Rússneski kjarnorkukafbáturinn Orel stóð í ljósum logum í gær þar sem hann var í slipp í bænum Severodvinsk í Arkhangelsk-héraði norður við Hvítahafið.

Rússneskir fjölmiðlar höfðu eftir embættismönnum að engin hætta væri á ferðum. Hvorki væri hætta á kjarnorkusprengingu né leka á geislavirkum efnum.

Fullyrt er að öll kjarnorkuvopn hafi verið fjarlægð úr bátnum áður en hann var tekinn til viðgerðar í slippnum, en þar hefur hann verið í nokkur ár. Einnig hafi hættulegustu hlutar kjarnorkukljúfs bátsins verið fjarlægðir.

Minnstu munaði að kjarnorkuslys yrði þegar eldur kviknaði í öðrum rússneskum kjarnorkukafbát árið 2011. Rússneskir fjölmiðlar skýrðu þó ekki frá þessari hættu fyrr en nokkrum mánuðum síðar.

Kafbáturinn Orel er af gerðinni Oscar-II. Um borð eru tveir kjarnakljúfar og búnaður til að vera með kjarnorkuflugskeyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×