Erlent

Á annan tug látnir vegna gróðurelda í Síberíu

guðsteinn bjarnason skrifar
Þykkur reykur lá yfir svæðinu þar sem eldarnir geisuðu.
Þykkur reykur lá yfir svæðinu þar sem eldarnir geisuðu. nordicphotos/AFP
Þúsundir Rússa hafa hrakist að heiman síðustu daga vegna gróðurelda sem geisað hafa í Khakassíuhéraði, sem er sunnan til í Síberíu, skammt norður af Mongólíu. Að minnsta kosti 23 höfðu látið lífið í gær og hátt í fimm þúsund manns höfðu hrakist frá heimilum sínum vegna eldanna. Meira en þúsund heimili hafa eyðilagst.

Meira en 900 höfðu þurft á læknisaðstoð að halda og um hundrað manns voru fluttir á sjúkrahús, að sögn Reuters-fréttaveitunnar.

Þúsundir slökkviliðsmanna hafa tekið þátt í slökkvistarfinu. Í gær hafði náðst sá árangur með baráttunni að tekist hafði að slökkva elda í öllum þorpum á þessu svæði, en þau skipta tugum.

Mikið eignatjón er sagt hafa orðið vegna eldanna. Þar á meðal hafi grunnskóli brunnið til grunna. Þá hafa þúsundir dýra orðið eldunum að bráð, þar á meðal sauðfé og nautgripir.

Miklir hitar eru á þessum slóðum og hvassviðri, sem gerir það að verkum að eldarnir breiðast hratt út. Í gær höfðu einnig kviknað gróðureldar annars staðar í Síberíu, nokkru austar, og höfðu kostað tvo menn þar lífið.

Vladimír Pútín forseti hélt sjálfur á staðinn og tók að sér stjórn neyðaraðgerða, að því er haft var eftir talsmanni hans í fjölmiðlum.

Stjórnvöld lýstu yfir neyðarástandi og segja eldana hafa kviknað vegna kæruleysis við meðferð á eldi. Bændur hafi verið að kveikja í sinu, og verða einhverjir þeirra sóttir til saka. Algengt er að bændur á þessum slóðum kveiki í sinu í lok vetrar. „Eldarnir hefðu ekki kviknað ef einhverjir hefðu ekki verið að leika sér með eldspýtur,“ hefur rússneski fjölmiðillinn RT eftir Alexander Tsjúpríjan, aðstoðarráðherra í Kakhassíu. „Það var fullorðið fólk en ekki börn sem gerði þetta.“

Hann segir atburði af þessu tagi endurtaka sig árlega, en undanfarin ár hefur ástandið nokkrum sinnum orðið óvenju slæmt í Rússlandi.

Fyrir fimm árum kostuðu gróðureldar tugi manna lífið í Rússlandi, þegar þurrkar og sumarhitar urðu óvenju miklir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×