Erlent

Reiknar með allsherjarinnrás Rússa

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Petro Poroshenko
Petro Poroshenko
„Úkraínuher þarf að vera undirbúin fyrir nýtt áhlaup frá óvininum,“ sagði Petro Porósjenkó Úkraínuforseti í ávarpi sínu í þinginu í gær.

„Auk þess þurfum við að búast við allsherjarinnrás við landamæri Rússlands. Við þurfum að vera viðbúin þessu.“

Aukin harka hefur færst í bardaga stjórnarhersins og uppreisnarmanna í austurhluta Úkraínu en talsmenn beggja hliða segja að tuttugu manns hafi látist í bardögum á miðvikudag.

Eftirlitsmenn Öryggissamvinnustofnunar Evrópu segjast hafa séð mikið magn þungavopna í eigu uppreisnarmanna á leið að víglínum. Bann við notkun þungavopna í átökunum er ein meginforsenda vopnahléssamkomulagsins í Minsk sem virðist nú standa höllum fæti.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur sagt að Úkraínumenn grafi undan vopnahléinu með því að neita að hefja viðræður við uppreisnarmenn.

Hvorug hliðin vill gangast við því að hafa brotið samkomulagið. Rússar hafa þá hafnað því að hermenn þeirra taki þátt í bardögunum en Porósjenkó fullyrðir að um 9.000 rússneskir hermenn berjist með uppreisnarmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×