Erlent

Nær ekki að breyta stjórnskipan

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nokkrar konur fengu leyfi til að láta taka myndir af sér með forsetanum
Nokkrar konur fengu leyfi til að láta taka myndir af sér með forsetanum nordicphotos/AFP
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta varð ekki að ósk sinni í þingkosningunum í gær, þar sem stjórnarflokkur hans nær ekki auknum meirihluta.

Hann hefði þurft tvo af hverjum þremur þingmönnum til að geta breytt stjórnskipan landsins án aðkomu annarra flokka. Erdogan hafði vonast til þess að geta gert Tyrkland að forsetaræðisríki með svipuðum hætti og Bandaríkin og Frakkland.

Útkoman úr kosningunum varð hins vegar sú, samkvæmt fyrstu tölum, að Réttlætis- og þróunarflokkurinn náði ekki einu sinni hreinum þingmeirihluta og þarf því að ganga til samstarfs við aðra flokka.

Flokkurinn fékk rúmlega 41 prósent atkvæða en Lýðveldisflokkurinn, sem er helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hlaut rúmlega 25 prósent.

Kosningarnar mörkuðu einnig tímamót að því leyti að flokkur Kúrda náði í fyrsta sinn mönnum á þing. Flokkurinn hafði reyndar 29 fulltrúa á síðasta þingi, en þeir buðu sig ekki fram í nafni flokksins heldur sem óháðir frambjóðendur.

Flokkurinn tók ákvörðun um að bjóða fram lista fyrir þessar kosningar, sem var ákveðin áhætta því hann þurfti að ná tíu prósenta lágmarki til að ná manni á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×