Innlent

Á annan tug kvenna mögulega smitaðar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Nígerískur karlmaður er grunaður um að hafa haft óvarin kynmök við íslenskar konur vitandi það að hann væri smitaður af HIV-veirunni. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst í héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Á annan tug kvenna eru á lista yfir þá sem verið er að reyna að hafa samband við vegna málsins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er að minnsta kosti ein kona smituð.

Maðurinn er hælisleitandi og hefur verið hér á landi í meira en ár. Hann er talinn vera á þrítugsaldri en aldur hans hefur þó ekki fengist staðfestur.

Við komu hans til landsins dvaldi hann á Fit hostel. Hann býr nú í Reykjavík.

Lögreglan rannsakar nú mál mannsins í samstarfi við sóttvarnarlækni. Rannsóknin snýr meðal annars að því að skoða hvort fleiri konur kunni að hafa verið í samneyti við manninn og hvort þær séu smitaðar.

Haraldur Briem
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins komst upp um málið eftir að erlend kona, fyrrverandi kærasta mannsins, hafði samband við íslenska stúlku sem hún vissi að hann hefði átt í kynferðislegu samneyti við. Stúlkan tilkynnti um málið og rannsókn fór af stað. 

HIV-veiran getur valdið alnæmi en veiran brýtur niður ónæmiskerfi líkamans ef ekki koma til lyf sem duga. 

Í samtali við Fréttablaðið segir Haraldur Briem, fráfarandi sóttvarnarlæknir, að líkurnar á því að smitast af veirunni séu um einn á móti tvö hundruð við einar samfarir. „Það getur auðvitað alveg gerst að maður smitist eftir eitt skipti.“

Haraldur segir að í svona tilfellum byrji embætti sóttvarnarlæknis á því að koma smituðum einstaklingi í meðferð og í kjölfarið sé farið í það að rekja mögulegar smitleiðir. „Það þarf að hafa samband við alla sem koma til greina. Ef allt gengur vel, við finnum fólkið og það sækir meðferð þá aðhöfumst við ekkert frekar. Ef lögreglan telur að eitthvað brotlegt hafi átt sér stað þá hefst rannsókn.“

Verði maðurinn að lokinni rannsókn ákærður verður það í fyrsta sinn hér á landi sem maður er ákærður fyrir að smita aðra vísvitandi af HIV- veirunni.

Guðný Helga Herbertsdóttirfréttablaðið/valli
Öllum svarað hratt

Guðný Helga Herbertsdóttir, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, hvetur þær konur sem telja möguleika á smiti til að hringja í göngudeild smitsjúkdóma og óska eftir viðtali. „Það er öllum svarað hratt sem leita þangað og það er fullur trúnaður um allt sem fer þar fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×