Erlent

Segist vera stríðsmaður barnanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Robert Lewis Dear.
Robert Lewis Dear. Vísir/Getty
Maður sem ákærður er fyrir að hafa skotið þrjá til bana og sært níu í skotárás á læknastofu þar sem fóstureyðingar fara fram í Colorado í Bandaríkjunum, segist vera sekur. Hann lýsti því yfir í réttarsal í dag að hann væri að berjast fyrir börnin.

Hinn 57 ára gamli Robert Lewis Dear gafst upp fyrir lögreglu eftir rúmlega fimm klukkustunda umsátur 27. nóvember. Hann hóf skothríð úr riffli fyrir utan læknastofuna og réðst síðan inn. Einn þeirra þriggja sem lét lífið var lögregluþjónn.

Ekki stóð til að hann myndi lýsa afstöðu sinni til ákæruefnisins í dag, en við upphaf réttarhaldanna kallaði Dear: „Ég er sekur, við þurfum ekki réttarhöld. Ég er stríðsmaður fyrir börnin.“

Lögmaður Dear vakti athygli á geðrænum vanda Dear og sagðist telja að vandamál hans væru öllum augljós.

Tilefni árásar hans er talið tengjast ofsakenndri afstöðu hans gagnvart fóstureyðingum og hafa forsvarsmenn læknastofunnar haldið því fram. Köll Dear í réttarsal í dag gefa það einnig sterklega til kynna.


Tengdar fréttir

Fleiri en ein fjöldaskotárás í Bandaríkjunum á dag

Ítrekuð varnaðarorð forsetans í þessa veru virðast ekki hafa mikla þýðingu, sé tekið tillit til fjölda skotárása sem orðið hafa þar í landi það sem af er ári, sú síðasta nú á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×