Erlent

Ólafur Ragnar fundaði með Gore

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Forsetahjónin og Al Gore ræða við Ólaf Wallevik prófessor.
Forsetahjónin og Al Gore ræða við Ólaf Wallevik prófessor. mynd/forseti.is
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fundaði með Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna og nóbelsverðlaunahafa, á Heimsþingi hreinnar orku, sem haldið var í Abu Dhabi fyrr í mánuðinum. Á setningarathöfn Heimsþingsins fór einnig fram afhending Zayed orkuverðlaunanna en Ólafur er formaður dómnefndarinnar.

Al Gore hlaut sérstök heiðursverðlaun fyrir forystu í baráttu gegn loftlagsbreytingum. Ólafur fundaði með Al Gore eftir verðlaunin og ræddu þeir baráttuna gegn loftlagsbreytingum, hið alþjóðlega samningaferli og horfurnar á samkomulagi þjóða um aðgerðir til að stemma stigu við hrikalegum loftlagsbreytingum, samkvæmt fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta.

Forseti ásamt öðrum forystumönnum og verðlaunahöfum í keppni sólarknúinna bifreiða.mynd/forseti.is
Zayed orkuverðlaunin eru viðamestu verðlaun sinnar tegundar í heiminum. Þau eru veitt forystumönnum í alþjóðamálum, vísindamönnum, rannsóknarstofnunum, baráttusamtökum og fyrirtækjum sem rutt hafa brautina í orkubúskap og leitt baráttuna gegn loftlagsbreytingum. Verðlaunaféð nemur tæpum hálfum milljarði íslenskra króna.  

„Það er ótrúlegt að sjá hve margir alls staðar að úr heiminum eru að gera frábæra hluti á hverju ári með endurnýtingu orku,“ segir Ólafur í viðtali við fréttavefinn Clean Technice. Viðtalið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×