Fótbolti

Alex Morgan andlit FIFA 16

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Morgan varð heimsmeistari með Bandaríkjunum í sumar.
Alex Morgan varð heimsmeistari með Bandaríkjunum í sumar. vísir/afp
Nýbakaði heimsmeistarinn Alex Morgan, framherji bandaríska landsliðsins í fótbolta, verður fyrsta konan til að prýða hulstur tölvuleiksins FIFA 16. Með Morgan á hulstrinu verður Lionel Messi, leikmaður Barcelona og argentínska landsliðsins.

Morgan verður þó bara á hulstrinu í bandarísku útgáfu leiksins en Christine Sinclair, fyrirliði Kanada, mun prýða kanadísku útgáfu leiksins.

EA Sports gaf það út í maí að FIFA 16 yrði fyrsti leikurinn til að innihalda kvennalið. Þeir sem spila leikinn geta valið um 12 kvennalandslið til að spila með, þ.á.m. heimsmeistara Bandaríkjanna, England, Brasilíu og Þýskaland.

„Það er mikill heiður að vera fyrsta konan á hulstri FIFA tölvuleiksins,“ skrifaði Morgan á Twitter-síðu sína en FIFA 16 kemur í verslanir í Bandaríkjunum 22. september. Þremur dögum síðar kemur leikurinn út í Bretlandi en Jordan Henderson, nýskipaður fyrirliði Liverpool, prýðir hulstur ensku útgáfunnar ásamt Messi.

Hin 26 ára gamla Morgan gerði eitt mark á HM í Kanada í sumar en hún hefur alls skorað 52 mörk 91 landsleik fyrir Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×