Erlent

Varoufakis segir af sér

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Yanis Varoufakis fjármálaráðherra hefur sagt af sér embætti.
Yanis Varoufakis fjármálaráðherra hefur sagt af sér embætti. vísir/AFP
Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, hefur sagt af sér embætti. Í bloggfærslu þar sem hann tilkynnti afsögn sína sagði hann ákvörðunina tilkomna vegna þrýstings evrópskra leiðtoga um hann tæki ekki frekari þátt í skuldaviðræðum þjóðarinnar. 

Fjármálaráðherrann segir að Alexis Tsiprars forsætisráðherra hafi talið að afsögn hans gæti hjálpa ríkisstjórninni að ná samkomulagi. Í niðurlagi færslunnar lýsir hann yfir stuðningi við Tsipras, nýjan fjármálaráðherra og ríkisstjórnina í heild. 

Ákvörðunin kemur beint í kjölfar þess að Grikkir höfnuðu samkomulagi við lánardrottna ríkisins en Tsipras segir gríska kjósendur hafa tekið hugrakka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær. 

61,3 prósent þjóðarinnar höfnuðu samningum við kröfuhafa ríkisins en 38,7 prósent samþykktu. Þúsundir fögnuðu á götum úti eftir að úrslitin voru ljós. 

Óljóst er hvað gerist í framhaldinu en Tsipras hefur boðað lykilmenn í grískum stjórnmálum á fund sinn í dag til að fara yfir niðurstöður kosninganna.

Angela Merkel, kanslari þýskalands, og Francois Hollande, forseti Frakklands, munu funda í dag um hvernig Evruríkin munu bregðast við en þau hafa einnig kallað hina leiðtoga Evruríkja til fund á morgun til að fara yfir stöðuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×