Erlent

Fyrstu konurnar útskrifast úr einum erfiðasta skóla hersins

Samúel Karl Ólason skrifar
Kristen Griest á æfingu.
Kristen Griest á æfingu. Vísir/AFP
Þær Kristen Griest og Shaye Haver og útskrifast í dag úr einum erfiðasta skóla bandaríska hersins. Með þeim útskrifast 94 menn. Þrátt fyrir að þær hafi varið tveimur mánuðum í að komast í gegnum einstaklega erfiðar þrautir, munu Grist og Haver ekki geta barist við hlið mannanna sem þær útskrifast með.

Yfirmenn hersins vinna nú að því að gera konum kleift að komast í átakahlutverk innan hersins. Opnun Ranger skólans fyrir konum nú í vor er hluti af því átaki.

„Okkur fannst að við værum að gefa jafn mikið af okkur og mennirnir og þeim fannst það líka,“ sagði Griest við blaðamenn. Haver sagði konurnar hafa byrjað í skólanum með efasemdir og þær hafi grunað að veru þeirra þar yrði mótmælt. Það hafi þó ekki gerst.

Mennirnir sem voru með þeim, hrósa Haver og Griest fyrir þrautseigju. Þegar aðrir voru of þreyttir til að bera vopn sín eða aðrar byrgðir voru þær fyrstar til að bjóða fram hjálp sína.

„Þær geta þjónað við hlið mér hvenær sem er því ég veit að ég get treyst þeim,“ sagði Erickson Krogh, sem útskrifaðist með Griest og Haver. „Sérstaklega þessar tvær. Ég ætti ekki í neinum erfiðleikum með að berjast við hlið þeirra.“

Bæði Griest og Haver útskrifuðust úr West Point, akademíu bandaríska hersins. Haver flýgur svokallaðri Apache árásarþyrlu og Griest er meðlimur herlögreglunnar. Þær voru tvær af 19 konum sem skráðu sig í skólann í apríl. Af 364 sem skráðu sig kláruðu einungis 96 hermenn, en þær tvær þurftu báðar að byrja tímabilið upp á nýtt á einum tímapunkti.

Í skólanum þurfa hermennirnir að klífa fjöll og synda með jafnvel 50 kílóa bakpoka. Þeim er einungis gefið að borða tvisvar sinnum á dag og þá bara sérstaka skammta hersins. Þar að auki gefst þeim lítill tími fyrir svefn á næturnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×