Erlent

Ríkið tekur yfir rekstur verslanakeðju

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicolas Maduro
Nicolas Maduro Vísir/EPA
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, skipaði í dag fyrir um að stjórnvöld landsins myndu taka yfir einkarekna matarverslanakeðju. Hann sakaði fyrirtækið um að hafa safnað mat þrátt fyrir langar biðraðir og skort í landinu.

Hann sagði að ríkið myndi taka yfir alla þjónustu þessa fyrirtækis, sem hefði lýst yfir stríði gegn þegnum Venesúela. Forsetinn tók þó ekki fram hvaða verslanakeðju væri um að ræða, samkvæmt AFP fréttaveitunni. Þó er talið að um sé að ræða fyrirtækið Dia a Dia. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var handtekinn í dag.

Maduro, sem flutti ávarp í ríkissjónvarpi landsins sagði ekki hvort að um þjóðnýtingu væri að ræða, né hvort að um varanlega breytingu væri að ræða. Síðastliðinn þriðjudag sendi hann hermenn og embættismenn í verslanir keðjunnar, sem áttu að sjá um sölu og dreifingu í verslununum.

Kreppa skall á í landinu í fyrra og hefur verðbólga hækkað gífurlega mikið. Þá hefur verðlækkun á olíu dregið verulega úr tekjum Venesúela. Mikill skortur hefur myndast á matvælum og lyfjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×