Erlent

Engin niðurstaða á fundi Putin, Merkel og Hollande

Samúel Karl Ólason skrifar
Fundurinn var sagður hafa verið uppbyggilegur.
Fundurinn var sagður hafa verið uppbyggilegur. Vísir/EPA
Þau Angela Merkel, Francois Hollande og Vladimir Putin, þjóðarleiðtogar Þýskalands, Frakklands og Rússlands, komust að engri niðurstöðu á fundi sínum í dag. Fundurinn er þó sagður hafa verið uppbyggilegur, en honum var ætlað binda endi á átökin í Úkraínu. Þjóðarleiðtogarnir ræddu saman í fimm klukkustundir, en munu ræða málin aftur í síma á sunnudaginn.

Frá því í apríl hafa nærri því 5.400 manns látið lífið í átökunum í austurhluta Úkraínu, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Rússland hefur verið verið sakað um að útvega aðskilnaðarsinnum í Úkraínu vopn, menn og annan búnað. Því hafa yfirvöld í Moskvu þó ávalt neitað.

Stríðandi fylkingar sömdu um vopnahlé í september, en ekki tókst að stöðva átökin. Síðan þá hefur aðskilnaðarsinnum gengið vel og hafa þeir hernumið stærri svæði í landinu.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna.Vísir/EPA
Fyrr í dag dró Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna í efa að Pútín væri tilbúinn til samkomulags. Biden sagði að þrátt fyrir að Putin hefði margsinnis kallað eftir vopnahléi héldu hermenn hans áfram sókn í Úkraínu og að hann hafi hundsað alla samninga sem Rússland hafi skrifað undir.

„Við megum ekki leyfa Rússum að teikna kortið af Evrópu upp á nýtt. Það er nákvæmlega það sem þeir eru að gera.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×