Erlent

Sökuð um að sviðsetja rán á syni sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Foreldrar sex ára drengs í Bandaríkjunum, auk ömmu hans og frænku, hafa verið sökuð um að hafa sett á svið mannrán til að kenna honum lexíu. Þau þóttust ræna honum þar sem hann var of viðkunnanlegur við ókunnuga.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í Missouri, vildu þau hræða drenginn. Til þess fengu þau samstarfsmann frænku hans til að plata hann upp í bíl sinn, fyrir utan skólann hans.

Maðurinn er sagður hafa hótað drengnum að hann myndi aldrei sjá foreldra sína aftur og að hann myndi negla hann við vegg. Þar að auki sýndi hann honum skammbyssu til að fá hann til að hætta að gráta, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Hendur og fætur drengsins voru bundnar og jakki var settur yfir hann. Þá fór maðurinn með hann á heimili foreldra drengsins þar sem hann var læstur niður í kjallara. Seinna leysti maðurinn drenginn og sagði honum að fara upp úr kjallaranum.

Þar biðu foreldrar hans eftir honum og skipuðu þau honum að halda sér frá ókunnugu fólki.

Samkvæmt lögreglunni töldu foreldrar drengsins sig ekki hafa gert neitt rangt. Þau hafi einungis viljað fræða son sinn um hættuna sem stafar af ókunnugu fólki. Þau hafa öll verið ákærð fyrir mannrán og vanrækslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×