Erlent

Skipuleggja fjölmenn mótmæli í Moskvu 1. mars

Atli Ísleifsson skrifar
Alexei Navalny fékk skilorðsbundinn dóm fyrir stuld í lok desembermánaðar síðastliðinn.
Alexei Navalny fékk skilorðsbundinn dóm fyrir stuld í lok desembermánaðar síðastliðinn. Vísir/EPA
Fjölmennur mótmælafundur gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu er nú í undirbúningi. Aðgerðasinninn og lögmaðurinn Alexei Navalny hefur sótt um leyfi fyrir fundinum en hann hefur harðlega gagnrýnt forsetann síðastliðin ár.

Navalny situr nú í stofufangelsi og hefur sent bréf til borgarstjóra Moskvuborgar og er fyrrum óligarkinn Mikhail Khodorkovsky er einn þeirra sem skrifa undir bréfið. Hafa þeir beðið um leyfi fyrir fund sem allt að 100 þúsund manns geta sótt.

Rússnesk lög gera ráð fyrir að tilkynna þurfi um fyrirhuguð mótmæli með minnst fimmtán daga fyrirvara. Mótmælin munu fara fram sunnudaginn 1. mars, en hagfræðingar áætla að verðbólga í landinu nái methæðum í næsta mánuði. Gert er ráð fyrir að mótmælin klárist við hlið Kreml-hallar.

Í frétt SVT segir að Khodorkovsky hafi í september sagst vera reiðubúinn að bjóða sig fram til forseta, takist Pútín ekki að stöðva spillingu í landinu og koma efnahagsmálum landsins í betra horf.

Khodorkovsky var eitt sinn eigandi olíurisans Yukos og ríkasti maður Rússlands. Árið 2003 hlaut hann fangelsisdóm fyrir fjársvik, en var sleppt tíu árum síðar. Hann dvelur nú í Þýskalandi, en ekki er ljóst hvort hann verði viðstaddur mótmælin.

Mótmælin hafa fengið nafnið „Vor“ (Vesna) og eiga að vera í anda þeirra friðsamlegu mótmæla sem fram fóru í Austur-Evrópu undir lok níunda áratugarins. Navalny segir að afsagnar Pútíns sé krafist.

Navalny fékk skilorðsbundinn dóm fyrir stuld í lok desembermánaðar síðastliðinn. Fjölmargir hafa gagnrýnt dóminn og segja pólitískar ástæður hafa legið að baki sakfellingunni.

Navalny og Khodorkovsky eru tveir af mest áberandi andstæðingum Pútíns forseta en þetta er í fyrsta sinn sem þeir leiða saman hesta sína með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×